Netlufiðrildi (Aglais urticae)

Útbreiðsla

Evrópa frá norðri til suðurs og gjörvöll Asía austur til Kyrrahafs. Slæðingur í Færeyjum.

Ísland: Netlufiðrildi er slæðingur á Íslandi sem hefur fundist víða um land, mestmegnis þó á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, einnig í Reykjanesbæ, Stykkishólmi, á Patreksfirði, Hvammstanga, Akureyri, Selfossi, í Ölfusi og Vestmannaeyjum.

Lífshættir

Netlufiðrildi halda sig hvarvetna þar sem brenninetlur (Urtica dioica) vaxa, en á þeim nærast lirfurnar. Karldýr helgar sér setstað, oft þar sem sól skín á á ógróinn blett í nágrenni við netlubreiðu. Þaðan ver hann óðal sitt af hörku og ræðst til atlögu við önnur karldýr eða stór skordýr sem ónáða. Öðruvísi horfir við ef fönguleg dama lætur sjá sig, en þá gleymir karlinn stað og stund og eltist við hana jafnvel tímunum saman eða þar til ástir takast með þeim. Kvendýrið leitar síðan uppi netlubreiðu á sólríkum stað og verpir eggjum sínum í klasa neðan á laufblað ofarlega á plöntunni. Það verpir gjarnan snemma í maí. Eggin klekjast eftir um tíu daga og lirfurnar fara þegar að spinna saman blöðin efst á plöntunni og éta þau. Þegar lirfurnar stækka skríða þær oft margar saman út úr spunahjúpnum til að nærast „utanhúss“, en skila sér til baka til að hvílast og hafa hamskipti. Þegar þær hafa gengið hart að plöntunni færa lirfurnar sig yfir á nýja plöntu og spinna þar nýjan hjúp sér til skjóls. Eftir fjórðu og síðustu hamskipti tvístrast lirfuhópurinn og hver lirfa heldur sig ein og sér þar til púpun á sér stað eftir 3-4 vikur á lirfustigi. Þegar að púpun kemur eiga lirfurnar það til að skríða langar vegalengdir í leit að hentugum stað til að púpa sig. Dæmi er þekkt um 50 metra spöl frá næstu brenninetlu. Púpustig varir í tvær vikur. Þá fer í loftið ný kynslóð netlufiðrilda sem flögrar um og dreifir sér víða áður en þau leggjast í vetrardvala, en tegundin liggur vetrardvalann á fullorðinsstigi. Á haustin finna fiðrildin afdrep á ýmsum stöðum, t.d. í sprungnum trjáberki eða í kældu manngerðu umhverfi. Þau eiga það til að rumska af vetrarsvefni ef hlýnar og jafnvel flytja sig um set.

Almennt

Netlufiðrildi eru frekar sjaldgæfir slæðingar til landsins með varningi. Engin vísbending er til um að þau hafi náð að fljúga hingað af sjálfsdáðum þó tegundin sé þekkt fyrir að leggja lönd undir vængi. Langflug yfir opin höf er þeim augljóslega um megn. Netlufiðrildi er enginn nýliði hér því fyrsta eintak sem vitnað hefur verið til fannst í Reykjavík 1894. Alls eru 52 eintök á skrá frá upphafi skráninga og þar af 48 varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar. Ef skoðað er hvenær netlufiðrildin hafa borist hingað og niðurstöðum deilt á áratugi kemur í ljós að 15 fundust 1981-1990 og 18 á áratugnum 1991-2000, en mun færri annars. Eftir aldamótin hafa aðeins fimm eintök borist Náttúrufræðistofnun til varðveislu. Ekki er vitað hvort þessi fækkun sé vísbending um dapurt gengi tegundarinnar á meginlandi Evrópu á seinni árum.

Það er sömuleiðis athyglisvert að skoða hvenær árs netlufiðrildi berast hingað og falla niðurstöðurnar vel að lífsháttum tegundarinnar sem liggur vetrardvalann á fullorðinsstigi eins og fram hefur komið. Þroskaferli frá eggi til fullorðins dýrs tekur u.þ.b. tvo mánuði, frá maí til júlí. Ný kynslóð flýgur því síðsumars og þá taka fiðrildin að berast til landsins. Flest koma í ágúst og fram í nóvember, síðan færri en þó í nokkrum mæli í hverjum mánuði vetrar og fram í apríl. Netlufiðrildi sem koma á haust- og vetrarmánuðum berast einkum og sér í lagi með varningi úr kældum vöruskemmum í útlandinu þar sem þau höfðu komið sér fyrir til vetrardvalar. Hingað komin hitna þau upp á vörulagerum og blekkjast á stjá út í falskt vorið.

Netlufiðrildi er ekki líklegt til að ná fótfestu hér á landi. Jafnvel þó nægjanlega hlýni til að svo gæti orðið þá er fæðuplantan, brenninetlan, það fágæt og strjál að hún myndi vart duga til að veita netlufiðrildum framfæri.

Netlufiðrildi er óumdeilanlega fallegt fiðrildi og kennir margra lita í mynstri þess, þar sem mest ber á rauðgulum grunni og gulum og svörtum reitum og doppum. Blá punktaröð á annars dökkum vængjöðrum prýðir fiðrildin enn frekar. Bolurinn er dökkbrúnn og vængrætur brúnar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 24. október 2012.

Biota

Tegund (Species)
Netlufiðrildi (Aglais urticae)