Svölufiðrildaætt (Papilionidae)

Almennt

Heiti ættarinnar er dregið af ættkvíslinni Papilio sem komið er úr latínu og merkir einfaldlega fiðrildi. Þarna leynist því bakgrunnurinn að fiðrildafræðum Carls Linné.

Ættin hýsir stór og oftast einstaklega litskrúðug fiðrildi sem finnast í öllum heimshlutum þó fjölbreytileikinn sé langmestur í hitabeltislöndum. Tegundir finnast frá sjávarmáli upp í fjalllendi. Stærstu fiðrildi sem þekkt eru  tilheyra þessari ætt, þ.e. fuglafiðrildin af ættkvísl Ornithoptera.

Tegundir ættarinnar hafa ýmis sameiginleg einkenni. Fremst á frambol lirfa á öllum þroskastigum er lítt áberandi líffæri (osmeterium), en verði lirfunum ógnað skjóta þær líffærinu út og líkist það þá klofinni snákstungu. Til hliðar við tunguna eru  tveir áberandi augnblettir og birtast lirfurnar því rándýrum í ógnvekjandi snáksmynd.  Auk þess nærast lirfur margra tegunda á eitruðum plöntum og safna í sig eiturefnunum sér til enn frekari varnar. Eitrið gengur svo áfram til fullorðna stigsins og ver fiðrildin líka fyrir afræningjum enda nauðsynlegt fyrir jafn stór og áberandi fiðrildi að vera varin.

Hin eiginlegu svölufiðrildi eru dæmigerðar tegundir ættarinnar. Á afturjaðri afturvængja eru einkennandi útskot, mislöng og stundum mjög löng, sem minna á langar jaðarstélfjaðrir svölutegunda. Stundum eru jaðrarnir bylgjóttir, stundum jafnir. Þá er vængæðakerfið sérstakt fyrir ættina.

Þekktar eru yfir 550 tegundir í heiminum sem skiptast í þrjár undirættir. Tvær þeirra eiga fulltrúa í Evrópu, alls 13 tegundir  í fimm ættkvíslum. Á Norðurlöndum finnast þrjár tegundir ættarinnar en engin hér á landi. Ein tegund hefur borist hingað sem slæðingur.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |