Kálskjanni (Pieris brassicae)

Kálskjanni – Pieris brassicae
Mynd: Erling Ólafsson

Kálskjanni (Pieris brassicae), kvendýr.  Bolur 19 mm, vænghaf 55 mm. ©EÓ

Kálskjanni – Pieris brassicae
Mynd: Erling Ólafsson

Kálskjanni (Pieris brassicae), kvendýr.  Bolur 19 mm, vænghaf 55 mm. ©EÓ

Kálskjanni – Pieris brassicae
Mynd: Erling Ólafsson

Kálskjanni (Pieris brassicae), kvendýr.  Bolur 19 mm, vænghaf 55 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa norður til 65. breiddargráðu, suður til Norður-Afríku, austur um fjallahéruð Mið-Asíu, Japan. Asoreyjar, Kanaríeyjar, Hjaltlandseyjar. Suður-Afríka. Barst til Síle og náði þar fótfestu. Stakir fundir víðar um heim.

Ísland: Reykjavík, Mosfellsbær, Akranes, Stöðvarfjörður og Akureyri.

Lífshættir

Í nágrannalöndum okkar skríða kálskjannar úr púpum í fyrstu viku maí. Sú kynslóð sést síðan á flugi fram í miðjan júní, verpir og leggur drög að þeirri næstu. Þá dregur úr fjöldanum. Næsta kynslóð kemst á flug þegar komið er inn í júlí og nær fjöldinn hámarki í fyrrihluta ágúst og fljúga hvítu fiðrildin langt fram eftir september. Þessi seinni kynslóð er miklu fjölliðaðri en sú fyrri og blandast að einhverju leyti þriðju kynslóð. Í Suður-Evrópu kunna fjórar til fimm kynslóðir að ná flugi fyrir vetrardvala tegundarinnar á púpustigi seint að hausti.

Kálskjanni er algengastur í opnu ræktarlandi og þar sem matjurtir eru ræktaðar í húsagörðum án notkunar eiturefna. Garðakál (Brassica oleracea) er mikilvægasta fæðuplantan. Hún er ræktuð sem matjurt í fjölmörgum afbrigðum sem flestir þekkja. Margar aðrar tegundir krossblómaættar (Brassicaceae) ganga líka sem fæðuplöntur, til dæmis villtar tegundir eins og fjörukál (Cakile maritima). Kvendýr verpir eggjum á neðra borð plantnanna í klösum, oftast um 50 eggjum saman. Þau klekjast á 10-12 dögum. Lirfurnar litlu byrja á því að éta eggskurnirnar áður en þær leggjast á laufblöð plantnanna. Þær vaxa síðan mjög hratt og strax eftir um tvær vikur er lítið orðið eftir af blöðunum annað en æðarnar. Þá eykst vaxtarhraðinn til muna og eftir 3-4 vikur má segja að plönturnar séu uppétnar niður í rótarháls. Á því stigi liggja fjölmargar fullvaxnar lirfur (4 cm langar) í kös við rótarhálsinn. Þá fara þær að skríða burt, upp steina og staura, festa sig oftast í eins til tveggja metra hæð og púpa sig. Því fer þó fjarri að allar lirfurnar nái að púpast því hátt hlutfall hefur sýkst af sníkjuvespum sem gegna mikilvægu hlutverki við að halda í skefjum þessum mikla skaðvaldi í kálrækt.

Almennt

Kálskjanni er annálað farfiðrildi. Stundum fer gríðarlegur fjöldi fiðrilda á flakk og berast þau víða. Þó kálskjanni sé mikil flökkukind er ekki þekkt neitt dæmi þess að hann hafi þvælst hingað til lands með vindum. Sama gildir um Færeyjar. Hann virðist því ekki hafa sömu getu til að fljúga yfir víðáttur úthafanna eins og til dæmis aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) og þistilfiðrildi (Vanessa cardui). Og þrátt fyrir þann mikla fjölda sem finnst um gjörvalla Evrópu þá er með ólíkindum að tegundin skuli ekki oftar slæðast til landsins með varningi en raun ber vitni.

Svo kunnugt sé fannst kálskjanni hér fyrst á Akureyri 1939, síðan í Reykjavík 1951 og 1956, á Stöðvarfirði 1967, Mosfellsbæ 1987, svo enn í Reykjavík 1992 og 1995. Síðan ekki söguna meir fyrr en kálskjanni, nýskriðinn úr púpu, flögraði um í blómaverslun á Akranesi í mars 2019. Um fyrri tilfelli eru haldlitlar upplýsingar. Fjögur fiðrildanna fundust í mars og gætu hafa borist í púpum og skriðið úr þeim hingað komin. Önnur eru frá júní, júlí og ágúst.

Kálskjanni (bolur 19 mm, vænghaf 55 mm) er með stærri fiðrildum í Evrópu og fer fram hjá fáum sem um álfuna ferðast á sumrin.  Stórir hvítir vængir flögrandi fiðrildanna sjást á löngu færi og stundum er fjöldinn mikill. Framvængir eru hvítir nema gráleit káma við vængrætur og á vængenda. Afturvængir eru alhvítir. Sá er munur á kynjum að kvendýr hafa tvo hringlaga grátóna bletti á hvítum  vængfletinum. Bolurinn er grár, einnig höfuð og fálmarar sem hafa ljósa týru fremst á kylfunni.

Kálskjanni – Pieris brassicae
Kálskjanni (Pieris brassicae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Chinery, M. 1998. Collins Guide to the Butterflies of Britain and Europe. HarperCollinsPublishers, London.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |