Æðaskjanni (Pieris napi)

Æðaskjanni - Pieris napi
Mynd: Erling Ólafsson

Æðaskjanni (Pieris napi), karldýr. Bolur 17, vænghaf 44 mm. ©EÓ

Æðaskjanni - Pieris napi
Mynd: Erling Ólafsson

Æðaskjanni (Pieris napi), karldýr. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa frá Íshafi suður til Miðjarðarhafs, Asía austur til Japans, N-Ameríka. Í N-Afríku eru aðskildar undirtegundir sem stundum eru taldar sjálfstæðar tegundir. Slæðingur í Færeyjum.

Ísland: Fágætur slæðingur í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Æðaskjanni er hvað algengastur í rjóðrum og með stígum í skóglendi og í raklendi, t.d. í grósku með díkjum og skurðum. Heldur sig síður úti á opnum ökrum eins og skyldar tegundir kálfiðrilda. Lirfurnar éta laufblöð af fjölmörgum plöntum krossblómaættar (Brassicaceae), en síður grænkál (Bassica oleracea), sem er ofarlega á matseðli flestra kálfiðrilda. Æðaskjanni er því lítill skaðvaldur í matjurtaræktun. Í nágrannalöndunum eru að öllu jöfnu tvær kynslóðir fiðrilda á sumri, stundum þrjár og mögulega fjórar. Fiðrildi skríða úr púpum snemma vors og fljúga fiðrildi af 1. kynslóð í mestum fjölda frá miðjum apríl og fram í júní. Þá hverfa þau og lirfur vaxa upp. Næsta kynslóð flýgur síðan í júlí og fram eftir ágúst, jafnvel lengur, en nýklakin firðildi í september eru þó talin vera af 3. kynslóð. Púpur brúa síðan veturinn.

Almennt

Þó æðaskjanni sé mjög algeng tegund í nágrannalöndunum þá berst hann mun síður en aðrar tegundir kálfiðrilda til Íslands, enda tengist hann ekki matjurtum eins og þær hinar. Aðeins þrjú tilvik hafa verið skráð (eintök í safni Náttúrufræðistofnunar), öll í kjölfar jóla og eru fiðrildin talin hafa borist til landsins með innfluttum jólatrjám, væntanlega sem púpur á greinum norðmannsþins sem klakist hafa í yl jólahátíðar. Það fyrsta fannst 4. janúar 1987 í Reykjavík, hið næsta 14. janúar 2009 á Seltjarnarnesi og það síðasta 3. janúar 2013 í Reykjavík.

Æðaskjanni er dæmigert hvítt kálfiðrildi (Pieris) með gráleitan bol og hvíta vængi með dökkgrá framhorn framvængja, sem þó er óreglulega afmarkað, dökkgráan punkt utan við miðju vængsins og eins litan punkt á framrönd afturvængs, einnig utan við miðju. Ólíkt ættingjunum eru vængæðar áberandi grálitaðar á yfirborði og enn meira áberandi á neðra borði, einkum á gulleitu neðra borði afturvængjanna þar sem breiðir gráir skuggar fylgja æðunum.

Æðaskjanni (Pieris napi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Æðaskjanni (Pieris napi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wikipedia. Pieris napi. http://en.wikipedia.org/wiki/Green-veined_White [skoðað 9.1.2013]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |