Engjaskjanni (Pieris rapae)

Engjaskjanni - Pieris rapae
Mynd: Erling Ólafsson

Engjaskjanni (Pieris rapae), karldýr. Bolur 17, vænghaf 40 mm. ©EÓ

Engjaskjanni - Pieris rapae
Mynd: Erling Ólafsson

Engjaskjanni (Pieris rapae), karldýr. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa norður til 65. breiddargráðu, suður til N-Afríku, austur um alla Asíu til Japans. Barst til N-Ameríku um 1860 og breiddist út um alla álfuna, til Ástralíu 1939 og nam land um mestalla álfuna á þrem árum. Hefur borist til Færeyja.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður; einnig Keflavík, Selfoss og Blönduós.

Lífshættir

Engjaskjanni finnst hvarvetna í opnu landi þar gróður grær, einkum á engjum, ræktarlandi og í görðum. Finnst síður í þéttvöxnum skógum og heiðalandi. Lirfurnar éta allskyns káltegundir af ættkvíslinni Brassica, svo sem grænkál (B. oleracea), og repju og gulrófu sem eru afbrigði sömu tegundar (B. napus). Lirfurnar eru mikil átvögl og því mikilvirk meindýr í matjurtarækt. Þær geta einnig lagt sér til munns fjölmargar aðrar tegundir af krossblómaætt (Brassicaceae). Egg klekjast u.þ.b. fimm dögum eftir að þeim er orpið, jafnvel á skemmri tíma ef heitt er í veðri. Nýklaktar lirfurnar éta fyrst eggskurnina en hefjast síðan handa við að éta göt á blöð fæðuplöntunnar. Eftir 2–3 vikur á lirfustigi púpa þær sig á steinum og veggjum svo og á dauðum og lifandi plöntum. Í hlýju veðri nær fiðrildið að þroskast inni í púpunni á einni viku og komast á flug. Við hagstæð skilyrði tekur þroskatíminn allur því ekki nema um 25 daga. Púpur sem myndast á haustin leggjast í vetrardvalann.

Almennt

Engjaskjanni hefur ekki fest sig í sessi hér á landi enn sem komið er. Það er þó fullt eins líklegt að hann nái hér fótfestu í framtíðinni ef hlýnar í veðri enn frekar en orðið er. Óhjákvæmilega berst hann til landsins af og til með innfluttu grænmeti. Engjaskjanni fannst hér fyrst um borð í skipi í Reykjavíkurhöfn árið 1925 og fannst svo nokkrum sinnum í Reykjavík fram á miðja 20. öldina. Elsta eintak sem varðveitt er í safni Náttúrufræðistofnunar er frá 1950 og fannst það í Kópavogi. Alls barst safninu 21 eintak á árabilinu 1988–2011, flest fimm árið 1997. Engjaskjannar geta borist hingað hvenær sem er ársins, en ríflega helmingur eintakanna í safninu (13) er frá miðjum vetri, desember til febrúar. Að öllum líkindum koma þau sem púpur í innfluttu grænmeti, sem síðan ruglast í ríminu og klekjast á röngum tímum, þegar þær koma inn í hlýju.

Engjaskjanni er ein tegunda alkunnra hvítra kálfiðrilda (Pieridae), en þessi hvítu fiðrildi eru afar áberandi hvar sem ferðast er um útlandið. Engjaskjanni er mun minni en kálskjanni (Pieris brassicae), sem er höfðinginn í tegundahópnum og þekktasta tegundin. Vængir karldýra eru hvítir, aðeins grámóskulegir allra næst bolnum, framhorn framvængja dökkgrá, einn dökkgrár punktur utan við miðju vængsins og samlitur punktur á framrönd afturvængs, einnig utan við miðju. Neðra borð framvængja er hvítt nema gult undir framhornum, en afturvængir eru gulir á neðra borði. Kvendýr eru áþekk nema vængir með heldur gulari áferð og framvængur með tvo dökkgráa punkta. Grannir ljósgráir fálmarar hafa kylfulaga enda, dökkan með ljósum punkti á bláoddinum eins og ljóstýru.

Engjaskjanni (Pieris rapae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Engjaskjanni (Pieris rapae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson 1997. Athyglisverð skordýr. Engjaskjanni. Náttúrufræðingurinn 67: 104

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |