Steinfön (Stenoptilia islandicus)

Steinfön - Stenoptilia islandicus
Mynd: Erling Ólafsson
Steinfön (Stenoptilia islandicus). Bolur 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Útbreiðsla einskorðuð við Norður-Skandinavíu, Skotland og Ísland.

Ísland: Um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Steinfön heldur sig fyrst og fremst í þurru og hrjóstrugu landi, á melum, holtum og í skriðum. Lirfurnar nærast á steinbrjótum, t.d. þúfusteinbrjóti (Saxifraga caespitosa) og sennilega ekki síður á mosasteinbrjóti (S. hypnoides) en hvergi sést meira af steinfön en í skriðum þar sem mosasteinbrjótur vex hvað best. Flugtíminn hefst seint í júní, stendur sem hæst í júlí en honum lýkur eftir miðjan ágúst. Lirfurnar nærast að nóttu til, fela sig undir blöðum fæðuplöntunnar á daginn.

Almennt

Steinfön er með athyglisverðari fiðrildum sem finnast á Íslandi, ekki síst fyrir það hve heimsútbreiðsla hennar er takmörkuð. Áður var talið að hún lifði einnig á Grænlandi en í ljós hefur komið að þar er önnur náskyld tegund af amerískum uppruna, Stenoptilia mengeli sem einnig lifir á steinbrjótum.

Steinfön er eina fanafiðrildið sem lifir hér á landi og er því engri annarri tegund lík. Vængir hennar eru dæmigerðir fanavængir, með eina frekar grunna klauf í enda framvængja en tvær dýpri í enda afturvængja. Hún er öll ljósbrún eða drapplit nema framvængir með þrem dekkri blettum sem dofna þegar hreistur vængjanna slitnar. Í hvíld rúllast afturvængir saman upp undir framvængina og sjást ekki. Mjóir vængirnir standa þá á sinn sérstæða hátt út frá bolnum, út, aftur og upp. Bolurinn er grannur, afturbolur nokkuð langur, fætur örgrannir með áberandi sterkum sporum. Langir fálmarar örgrannir.

Steinfön (Stenoptilia islandicus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Steinfön (Stenoptilia islandicus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Gielis, C. 1996. Microlepidoptera of Europe. Volume 1. Pterophoridae. Apollo Books, Stenstrup. 222 bls.

Karsholt, O., N.P. Kristensen, T.J. Simonsen & M. Ahola 2015. Lepidoptera (Moths and butterflies). Í: Böcher, J., N.P. Kristensen, T. Pape & L. Vilhelmsen (ritstj.). The Greenland Entomofauna. An Identification Manual of Insects, Spiders and Their Allies. Brill, Leiden Boston. Fauna Entomologica Scandinavica 44, kafli 15: 302–352.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |