Glæðufiðrildaætt (Pyralidae)

Almennt

Glæðufiðrildaætt er nokkuð tegundarík en þekktar eru um 6.150 tegundir í heiminum. Lengi vel var ættin mun stærri eða þar til slæðufiðrildin voru klofin frá sem sjálfstæð ætt (Crambidae).

Glæður eru upp til hópa frekar smávaxin eða smávaxin fiðrildi sem eiga mörg einkenni sameiginleg með fiðrildum slæðufiðrildaættar. Bolur er langur og grannur og vængir mismunandi breiðir, oft tiltölulega mjóir en stundum það breiðir að glæður geta minnt á fetafiðrildi í hvíldarstöðu, þ.e. verið nánast þríhyrnulaga séðar ofan frá en þó er styttra á milli vængendanna á aðfeldum vængjunum en hjá fetafiðrildum. Stundum leggjast vængirnir íhvolfir yfir bolinn og verður fiðrildið þá frekkar staflaga í hvíld. Á báðum þessum ættum geta kjálkaþreifarar  verið langir og staðið alllangt fram úr neðanverðu höfðinu. Á báðum leggjast langir grannir fálmarar langs aftur eftir bakinu í hvíld. Nokkurs konar hljóðhimnueyra er fremst á hliðum afturbols slæðufiðrilda finnst ekki hjá glæðufiðrildum en í því liggur helstur munur á ættunum tveim. Sumar tegundir skarta fjölbreytilegum litum, önnur ekki, en litmynstur eru oftast þannig að þau auðvelda fiðrildunum að dyljast í hvíld.

Glæðufiðrildaætt hýsir fjölmargar tegundir efnahagslega mikilvægra skaðvalda. Langflestar tegundir nærast á plöntum en margar fyrst og fremst á fræjum þeirra eða ýmsum öðrum plöntuafurðum til mann- og dýraeldis. Sumar eru enn sérhæfðari, t.d. tegund sem lifir á vaxi í búum býflugna.

Á Íslandi hafa fundist fimm tegundir glæðufiðrilda. Aðeins ein þeirra finnst í náttúrunni,  þrjár eru skaðvaldar í kornmat og öðrum matvörum á heimilum, bakaríum og matvörulagerum. Ein er tilfallandi slæðingur með varningi.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |