Kúpusvarmi (Acherontia atropos)

Kúpusvarmi – Acherontia atropos
Mynd: Erling Ólafsson
Kúpusvarmi (Acherontia atropos). 80 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Afríka, Arabíuskaginn og austur til Kaspíahafs og Írans. Einnig við syðst í Evrópu og flækingur norður eftir álfunni allt til N-Noregs.

Ísland: Fágætur flækingur í Öræfasveit.

Lífshættir

Kúpusvarmi á sér engin sérstök kjörlendi og getur sýnt sig nánast hvar sem er. Kartöfluakrar hafa þó sérstakt aðdráttarafl enda nærast lirfur ekki síst á plöntum af kartöfluættinni (Solanaceae) og er kartöfluplantan (Solanum tuberosum) þar efst á blaði. Í raun eru lirfurnar afar fjölhæfar og éta yfir 100 plöntutegundir af ýmsum ættum. Þær leggjast einna helst á gömul blöð neðst á plöntunum, jafnvel blöð sem tekin eru að sölna.

Kvendýrin geta makast oft og verpa allt að 200 eggjum sem þau festa stök neðan á laufblöð fæðuplantna. Eggin klekjast eftir rúma viku og tekur það lirfurnar allt að tvo mánuði að ná fullum vexti. Fullvaxnar leggjast þær í langferðir skríðandi í leit að hentugum stöðum til að púpa sig. Þegar lirfa hefur fundið staðinn sinn spinnur hún um sig hjúp og púpar sig í honum. Fjórum til fimm vikum síðar skríður fullmótað fiðrildið úr púpu. Alls tekur þroskatíminn frá eggi til fiðildis allt að þrjá og hálfan mánuð ef miðað er við ríkjandi hitastig um 20°C. Sá tími er mun skemmri í heimkynnunum í hitabelti Afríku. Þar eru svarmarnir að allt árið og geta af sér nokkrar kynslóðir á ári hverju. Púpur geta lifað af vetrarkulda -4°C í allt að sex mánuði og því jafnvel þraukað vetur syðst á Norðurlöndum.

Fiðrildin laðast að býflugnabúum og leita inn í þau til að ræna hunangi. Þar getur kúpusvarmi blekkt á sér heimildir í nokkurn tíma með því að gefa frá sér sömu fitusýrur og býflugurnar. Með stuttum og sterkum sograna stingur hann göt á hunangshólfin og teygar í sig sætindin.

Kúpusvarmar fljúga þegar fer að skyggja og fram yfir miðnættið. Auk hunangs úr búum býflugna sækja þeir í safa ýmissa blóma, til dæmis kartöfluplantna, tóbaksplöntu (Nicotiana tabacum) og appelsínutrjáa (Citrus sinensis). Ólíkt öðrum tegundum svarma svermar kúpusvarmi ekki við blómin. Stuttur og stinnur sograninn gerir það að verkum að hann verður að tylla sér á blómin á meðan hann sýgur til sín blómasafann.

Kúpusvarmi er mikill fluggarpur með ríkt flökkueðli. Fjöldi fiðrilda flýgur stundum norður á bóg frá heimkynnum sínum í Afríku. Á Norðurlöndum taka kúpusvarmar að birtast í seinnihluta maí og sjást allt fram í nóvember, flestir frá miðjum ágúst fram í byrjun október.

Almennt

Kúpusvarmi er útbreiddastur þriggja tegunda af ættkvíslinni Acherontia sem allar eiga heimkynni í gamla heiminum, hinar tvær í Asíu. Ímynd kúpusvarma varð fyrir skakkaföllum í amerískri hryllingsmynd frá árinu 1991, Silence of the Lambs, þar sem lirfur fiðrildisins léku stórt hlutverk í sköpun hryllingsins. Heldur var þar ýkt formið á einkennandi hauskúpumyndinni á frambol fiðrildisins til að skerpa áhrifin á bíógesti. Valið á tegundinni í þetta hlutverk myndarinnar er athyglisvert fyrir það að hún lifir ekki í Ameríku!

Á fyrri hluta síðustu aldar dafnaði kúpusvarmi ágætlega í Mið-Evrópu og náði jafnvel að fjölga sér á sunnanverðum Norðurlöndum þegar vel áraði. Í Mið-Evrópu var töluvert um kúpusvarma fram á miðja síðustu öld og var þá nokkur skaðvaldur á kartöfluökrum. Þáttaskil urðu með aukinni vélvæðingu á ökrunum og notkun eiturefna. Kúpusvörmum snarfækkaði og fjölga þeir sér nú aðeins tilfallandi í norðanverðri álfunni. Tegundin telst enn nánast árlegur flækingur syðst í Danmörku en er fáséðari norðar.

Undir miðja síðustu öld og inn á sjötta áratuginn gerðist það af og til að kúpusvarmar bárust til Norðurlanda í umtalsverðum fjölda. Einmitt á því tímabili, nánar tiltekið 7. september 1941, fann Hálfdán Björnsson á Kvískerjum dauðan kúpusvarma rekinn á fjöru á Breiðamerkursandi. Eftir 1960 snarfækkaði komum kúpusvarma til Norður-Evrópu og varð þar með nokkuð ólíklegt að þeir bærust hingað til lands á ný. Þrátt fyrir það fannst kúpusvarmi á Hnappavöllum í Öræfasveit þann 18. september 2015 en þar sat hann á húsvegg. Ekki var nein sérstök innrás flækingsfiðrilda á Suðaustulandi um þær mundir.

Kúpusvarmi (bollengd 60-70 mm, vænghaf 94-131 mm) er stærsti svarminn í Evrópu, kvendýr öllu stærri en karldýr. Ekki einungis er vænghaf hans mikið heldur er bolurinn allur þykkur og mikill. Fiðrildið er svarbrúnt á lit í grunninn. Höfuð stórt einlitt með stutta þykka fálmara, svarta með áberandi hvíta endaliði, fálmarar lengri á karldýrum en kvendýrum. Frambolur þykkur, svarbrúnn með stórum, skýrt teiknuðum ryðlitum hauskúpuformuðum bletti á baki með svörtum dílum í augntótta stað. Afturbolur sömuleiðis þykkur og mikill, dökkur með ryðlitum hliðstæðum blettum á fimm liðanna. Framvængir langir, grannir og odddregnir með drapplitu, ryðlitu og rauðbrúnu mynstri, Afturvængir mun styttri, gulleitir með tveim dökkbrúnum þverbeltum utan við miðju. Afturvængir sjást ekki þegar svarminn situr.

Kúpusvarmi – Acherontia atropos
Kúpusvarmi (Acherontia atropos) - fundarstaður samkvæmt eintaki í safni Björns G. Arnarsonar, Höfn

Heimildir

D’Abrera, B. 1986. Sphingidae Mundi. Hawk Moths of the World. E.W. Classey Ltd, Faringdon.

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Acherontia atropos. https://www.gbif.org/species/1861510.

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare – tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae – Lymantriidae. Artdatabanken, SLU, Uppsala.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |