Kólibrísvarmi (Macroglossum stellatarum)

Kólibrísvarmi - Macroglossum stellatarum
Mynd: Erling Ólafsson
Kólibrísvarmi. 26 mm. ©EÓ
Kólibrísvarmi - Macroglossum stellatarum
Mynd: Erling Ólafsson
Kólibrísvarmi. 26 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Náttúruleg heimkynni eru í S-Evrópu og N-Afríku, austur um Arabíuskaga, Íran og S-Rússland, austur um Asíu til Kína og Japans. Á sumrin flakka fiðrildin norður eftir Evrópu allt norður til S-Svíþjóðar, S-Finnlands og Færeyja. Í Asíu flakkar kólibrísvarmi suður til Indlands á veturna. Hann hefur einnig náð yfir til Alaska.

Ísland: Sjaldgæfur flækingur og slæðingur fundinn á fáeinum stöðum; Reykjavík, Flói, Öræfi og Akureyri.

Lífshættir

Kólibrísvarmi flýgur fyrst og fremst á sólríkum dögum frá morgni til kvölds, verður þó mest áberandi er líða tekur að kvöldi. Flestar aðrar tegundir svarma fljúga í rökkri og myrkri að nóttu til. Kólibrísvarmi heldur sig fyrst og fremst á blómaengjum og í blómríkum görðum og sækist eftir blómasafa fjölmargra plöntutegunda. Þegar hann drekkur sendir hann langan sogranann ofan í blómin og svermar kyrr í loftinu á meðan hann sýpur líkt og kólibrífuglar gera. Svarmarnir eru taldir minnisgóðir því sömu einstaklingar rata á sömu blómin á nákvæmlega sama tíma dag eftir dag.

Ólíkt öðrum svörmum leggjast fullorðnir kólibrísvarmar í vetrardvala. Þeir sofa laust og eiga það til að grípa til vængja að vetrarlagi ef vel viðrar. Vetrardvalinn fer einnig að einhverju leyti fram á púpustigi. Lirfurnar nærast á möðrum (Galium), ekki síst gulmöðru (G. verum), og éta blómskipanirnar. Fullvaxnar púpa þær sig í spunahýði á jörðu eða innan um visin laufblöð. Í S-Evrópu eru 3–4 kynslóðir á ári.

Kólibrísvarmar í Miðjarðarhafslöndum leita norður á bóginn og ná allt til syðri sveita Norðurlandanna á tímabilinu frá miðjum maí og fram í byrjun október, í mestum fjölda í ágúst og byrjun september. Mikil áraskipti eru af fjöldanum og stundum er ný kynslóð getin þar norður frá. Fiðrildin nýju fljúga svo til baka suður á bóginn.

Almennt

Kólibrísvarmi hefur borist hingað til lands í nokkur skipti en þekkt eru sex tilvik. Aðeins eitt fiðrildanna er líklegt til að hafa borist af sjálfsdáðum. Það fannst á Fagurhólsmýri í Öræfum 13. sept. 1955 og sótti það á síðbúin blóm túnfífla sem enn stóðu í blóma. Áður hafði kólibrísvarmi fundist á Akureyri (12. sept. 1949) en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir um þann fund. Öll önnur tilvik má með vissu rekja til innflutnings; Villingaholtsskóli í Flóa (9. jan. 1986), Reykjavík (29. feb. 1996 og 12. feb. 2004), Akureyri (19. nóv. 2010). Álar N-Atlantshafs virðast því ekki auðveldir yfirferðar fyrir kólibrísvarma á faraldsfæti. Slíkir hafa þó náð til Færeyja í þrígang (fyrst í júlí 2005).

Kólibrísvarmi er með minni tegundum svarma. Hann er að mestu grábrúnn á lit. Á framvængjum eru tvær svartar bylgjulínur sem afmarka ívið ljósari bekk á miðjum vængjum. Afturvængir eru hins vegar að miklu leyti rauðgulir. Afturbolur er sérstakur, tiltölulega breiður og flatur. Á hliðunum aftan til eru langar hvítar og svartar hreisturflögur og svartar á afturendanum, en þær mynda nokkurs konar stél. Kviður afturbolsins hvelfist upp innan við stélið. Þetta fyrirkomulag eykur án efa stöðugleika fiðrildisins þegar það svermar við blómin.

Kólibrísvarmi (Macroglossum stellatarum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kólibrísvarmi (Macroglossum stellatarum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnuckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare – tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae – Lymantriidae. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 480 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |