Mynd: Erling Ólafsson
Kólibrísvarmi. 26 mm. ©EÓ
Mynd: Erling Ólafsson
Kólibrísvarmi. 26 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Náttúruleg heimkynni eru í S-Evrópu og N-Afríku, austur um Arabíuskaga, Íran og S-Rússland, austur um Asíu til Kína og Japans. Á sumrin flakka fiðrildin norður eftir Evrópu allt norður til S-Svíþjóðar, S-Finnlands og Færeyja. Í Asíu flakkar kólibrísvarmi suður til Indlands á veturna. Hann hefur einnig náð yfir til Alaska.
Ísland: Sjaldgæfur flækingur og slæðingur fundinn á fáeinum stöðum; Reykjavík, Flói, Öræfi og Akureyri.
Lífshættir
Kólibrísvarmi flýgur fyrst og fremst á sólríkum dögum frá morgni til kvölds, verður þó mest áberandi er líða tekur að kvöldi. Flestar aðrar tegundir svarma fljúga í rökkri og myrkri að nóttu til. Kólibrísvarmi heldur sig fyrst og fremst á blómaengjum og í blómríkum görðum og sækist eftir blómasafa fjölmargra plöntutegunda. Þegar hann drekkur sendir hann langan sogranann ofan í blómin og svermar kyrr í loftinu á meðan hann sýpur líkt og kólibrífuglar gera. Svarmarnir eru taldir minnisgóðir því sömu einstaklingar rata á sömu blómin á nákvæmlega sama tíma dag eftir dag.
Ólíkt öðrum svörmum leggjast fullorðnir kólibrísvarmar í vetrardvala. Þeir sofa laust og eiga það til að grípa til vængja að vetrarlagi ef vel viðrar. Vetrardvalinn fer einnig að einhverju leyti fram á púpustigi. Lirfurnar nærast á möðrum (Galium), ekki síst gulmöðru (G. verum), og éta blómskipanirnar. Fullvaxnar púpa þær sig í spunahýði á jörðu eða innan um visin laufblöð. Í S-Evrópu eru 3–4 kynslóðir á ári.
Kólibrísvarmar í Miðjarðarhafslöndum leita norður á bóginn og ná allt til syðri sveita Norðurlandanna á tímabilinu frá miðjum maí og fram í byrjun október, í mestum fjölda í ágúst og byrjun september. Mikil áraskipti eru af fjöldanum og stundum er ný kynslóð getin þar norður frá. Fiðrildin nýju fljúga svo til baka suður á bóginn.
Almennt
Kólibrísvarmi hefur borist hingað til lands í nokkur skipti en þekkt eru sex tilvik. Aðeins eitt fiðrildanna er líklegt til að hafa borist af sjálfsdáðum. Það fannst á Fagurhólsmýri í Öræfum 13. sept. 1955 og sótti það á síðbúin blóm túnfífla sem enn stóðu í blóma. Áður hafði kólibrísvarmi fundist á Akureyri (12. sept. 1949) en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir um þann fund. Öll önnur tilvik má með vissu rekja til innflutnings; Villingaholtsskóli í Flóa (9. jan. 1986), Reykjavík (29. feb. 1996 og 12. feb. 2004), Akureyri (19. nóv. 2010). Álar N-Atlantshafs virðast því ekki auðveldir yfirferðar fyrir kólibrísvarma á faraldsfæti. Slíkir hafa þó náð til Færeyja í þrígang (fyrst í júlí 2005).
Kólibrísvarmi er með minni tegundum svarma. Hann er að mestu grábrúnn á lit. Á framvængjum eru tvær svartar bylgjulínur sem afmarka ívið ljósari bekk á miðjum vængjum. Afturvængir eru hins vegar að miklu leyti rauðgulir. Afturbolur er sérstakur, tiltölulega breiður og flatur. Á hliðunum aftan til eru langar hvítar og svartar hreisturflögur og svartar á afturendanum, en þær mynda nokkurs konar stél. Kviður afturbolsins hvelfist upp innan við stélið. Þetta fyrirkomulag eykur án efa stöðugleika fiðrildisins þegar það svermar við blómin.
Kólibrísvarmi (Macroglossum stellatarum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnuckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare – tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae – Lymantriidae. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 480 bls.
Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.
Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 6. apríl 2011.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp