Möðrusvarmi (Hyles gallii)

Útbreiðsla

Evrópa frá norðurhluta Íberíuskaga nokkuð norður eftir Skandinavíu, austur um M-Evrópu og Alpafjöll til Rússlands, Síberíu og allt til Japans; Kanada og norðanverð Bandaríkin og suður með Klettafjöllum; flækingur í Færeyjum.

Ísland: Fágætur flækingur fundinn á fáeinum stöðum; Miðnes á Reykjanesskaga, Reykjavík, Kópavogur, Höfn í Hornafirði, Egilsstaðir.

Lífshættir

Möðrusvarmi finnst nær hvarvetna í heimkynnum sínum og verður varla sagt að hann eigi sér kjörlendi í uppáhaldi. Opin graslendi, blómlendi, vegkantar, skógarstígar, skrúðgarðar og hvað eina hentar honum. Hann forðast þó lokaða skóga og borgarumhverfi án blómlegra garða. Möðrusvarmi er mikill fluggarpur og berst víða um á skömmum tíma. Hann er auk þess gæddur flökkunáttúru sem gerir það að verkum að hann berst á stundum á milli landa í umtalsverðum fjölda. Á stöðum þar sem hann er vissulega landlægur kann stundum að bætast verulega í stofninn tímabundið vegna gestkomandi innrásar og er breytilegt eftir árum í hve miklum mæli það gerist. Einnig kann hann að flýja burt frá heimkynnum sínum þegar veður gerast óhagstæð og leita betri veðráttu annars staðar.Möðrusvarmi laðast að fjölmörgum safaríkum blómum til að sækja sér næringu. Hann er mest á ferli á sólríkum dögum en getur haldið út fram á kvöld þegar hlýtt er í veðri. Í N-Evrópu er um eina kynslóð að ræða á sumri sem flýgur frá miðjum júní fram í miðjan ágúst, með hámark í júlí. Sunnar í álfunni eru kynslóðirnar tvær og verður þá kynslóðabil á miðju sumri. Lirfurnar nærast fyrst og fremst á möðrum (Galium) en einnig á ýmsum öðrum tegundum eins og dúnurtum (Epilobium), birki (Betula), víði (Salix) og græðisúru (Plantago major), jafnvel á ræktuðum garðaplöntum. Lirfurnar ná fullum vexti síðsumars. Fullþroska lirfa skríður þá oft umtalsverða vegalengd frá fæðuplöntu í leit að hentugum stað til að púpa sig í gróðursverði. Þegar staður er fundinn spinnur hún um sig hjúp úr silki og föllnum laufum. Púpan leggst í vetrardvala, stundum jafnvel í tvo vetur.

Almennt

Möðrusvarmi er afar fágætur flækingur hér á landi. Kunnugt er um sex eintök sem hér hafa fundist. Fyrstu tveir fundust sama daginn í júlílok 1972, annar í Reykjavík en hinn suður á Miðnesi. Næst fannst möðrusvarmi í Kópavogi um miðjan ágúst 1990, síðan um miðjan ágúst ári síðar í Höfn í Hornafirði og að síðustu 2004, enn um miðjan ágúst, á Egilsstöðum. Tegundin hefur fundist hér á þriggja vikna tímabili, 29. júlí til 19. ágúst, og varla leikur á því vafi að hún berst hingað til lands af sjálfsdáðum eins og til Færeyja.

Möðrusvarmi er einkar fallegt fiðrildi og með þeim stærstu sem hingað berast. Þó hann sé ívið minni en kóngasvarmi (Agrius convolvuli) er hér um myndarskepnu að ræða með allt að 85 mm vænghaf. Hann er auk þess auðþekktur af litnum. Framvængir hafa breiða ljósa rönd allt út til vængenda en eru að öðru leyti grábrúnir. Mun minni afturvængirnir hafa einnig slíka ljósa rönd með áberandi rauðgulum bletti. Framan til á afturbol eru svartar og hvítar rendur á hliðunum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson 1997. Athyglisverð skordýr: Möðrusvarmi. Náttúrufræðingurinn 66: 132

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnuckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare – tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae – Lymantriidae. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 480 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Pittaway, A.R. 1997. Illustrated and annotated checklist of of thr hawkmoths of Europe, North Africa, the Middle East, Asia and Central Asia. Hyles gallii (Rottemburg, 1775). http://tpittaway.tripod.com/china/h_gal.htm [skoðað 15.2.2012]

Wikipedia. Hyles gallii. http://en.wikipedia.org/wiki/Hyles_gallii [skoðað 15.2.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 15. febrúar 2012.

Biota

Tegund (Species)
Möðrusvarmi (Hyles gallii)