Glætuvefari (Clepsis spectrana)

Glætuvefari - Clepsis spectrana
Mynd: Erling Ólafsson
Glætuvefari (nokkuð slitinn). 8 mm. ©EÓ
Glætuvefari - Clepsis spectrana
Mynd: Erling Ólafsson
Glætuvefari, lirfa. 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, einkum um norðanverða og miðbik álfunnar, austur til Kaspíahafs.

Ísland: Fágætur slæðingur, Laugarás í Biskupstungum.

Lífshættir

Glætuvefari lifir við fjölbreytilegar aðstæður. Hann kýs þó raklendi öðru fremur, mýrlendi, raklend skógarjóður, einnig sjávarfitjar. Lirfurnar lifa í samanspunnum laufblöðum fæðuplantna og gætir þar mikillar fjölbreytni. Af fæðulistanum má nefna dúnurtir (Epilobium), mjaðjurtir (Filipendula), murur (Potentilla), netlur (Urtica), jafnvel trjátegundir eins og eik (Quercus), hlyn (Acer) og ösp (Populus), einnig ræktaðar tegundir, s.s. alpafjólur (Cyclamen), jarðarber (Fragaria), humal (Humulus), pelargóníur (Pelargonium) og kvisti (Spiraea). Fiðrildin fljúga frá því snemma í maí og fram í júlí, jafnvel september, langflest um miðjan júní. Fullvaxnar lirfur finnast í maí til júní. Fiðrildin láta lítið fyrir sér fara að degi til. Þau sitja á plöntum og verði þau fyrir styggð láta þau sig gjarnan falla og hverfa dýpra ofan í gróðurinn. Þegar skyggir fara fiðrildin á stjá og flögra um frjálslega.

Almennt

Glætuvefari lifir ekki í íslenskri náttúru en ekki er útilokað að hann geti sest hér að berist hann í heppilegt umhverfi. Reyndar hefur innflutningur átt sér stað sem hefði getað leitt til landnáms. Haustið 2009 voru fluttir inn frá Þýskalandi rósagræðlingar sem komið var fyrir í gróðurhúsi í Laugarási í Biskupstungum. Vorið eftir var mikið af glætuvefurum á flögri í gróðurhúsinu og lirfur þeirra höfðu valdið umtalsverðum skaða á blöðum og blómum rósanna. Tiltölulega suðrænar umhverfisaðstæður á ylræktarsvæðinu á Laugarási eru þess eðlis að ætla má að glætuvefari geti náð þar fótfestu utanhúss. Þess eru þó engin ummerki enn sem komið er.

Heitið glætuvefari er dregið af kjörlendi tegundarinnar, en glæta merkir deigja, raki. Tegundin er mjög fjölbreytileg á lit, misdökk, drappleit til ryðrauð en þó með einkennandi mynstri á framvængjum. Á miðjum aðfelldum vængjum er brúnt eða ryðrautt V-laga belti og eins litir blettir á vængbrún þar fyrir aftan. Vængir eru breiðir, framrönd framvængja sveigð, og liggja vængirnir nokkuð íhvolfir en breiðir yfir bolnum.

Glætuvefari (Clepsis spectrana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Glætuvefari (Clepsis spectrana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1973. British Tortriciod Moths. Cochylidae and Tortricidae: Tortricinae. The Ray Society, London. 251 bls.

UKmoths. Cyclamen Tortrix Clepsis spectrana. http://ukmoths.org.uk/show.php?bf=993 [skoðað 1.2.2012]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |