Flikruvefari (Cochylis dubitana)

Flikruvefari - Cochylis dubitana
Mynd: Erling Ólafsson
Flikruvefari. 7 mm. ©EÓ
Flikruvefari - Cochylis dubitana
Mynd: Erling Ólafsson
Flikruvefari. 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa, Andalúsía, Rússland austur í Síberíu; einnig N-Ameríka.

Ísland: Útbreiddur um vestan- og sunnanvert landið, frá Barðaströnd austur í Suðursveit. Hefur auk þess fundist við Ásbyrgi.

Lífshættir

Blómlendi og kjarrlendi eru kjörlendi flikruvefara. Lirfurnar nærast á fræjum í blómhausum ýmissa tegunda körfublóma (Asteraceae). Flugtíminn er nokkuð langur eða frá mánaðamótum maí/júní til seinni hluta ágúst. Hámark er þó kringum mánaðamótin júní/júlí. Eintak sem fannst eftir miðjan september er undantekning og væntanlega af 2. kynslóð. Erlendis eru kynslóðirnar jafnan tvær og liggja lirfur seinni kynslóðar í vetrardvala spunnar inn í silkihýði. Þær púpa sig strax að dvalanum loknum.

Almennt

Flikruvefari fannst fyrst hérlendis árið 1950 og náði hann fljótlega nokkurri útbreiðslu. Hann hefur því hugsanlega numið hér land skömmu fyrir miðja 20. öldina. Hann hefur nú náð vestur í Vatnsfjörð á Barðaströnd og austur í Steinadal í Suðursveit. Mjög óvænt kom flikruvefari í ljósgildru við Ásbyrgi sumarið 2007.

Flikruvefari er smávaxinn vefari með fallega óreglulega flikrótta framvængi. Breytileiki er umtalsverður, bæði hvað stærð varðar og lit. Þá víkja íslensk eintök töluvert frá erlendum og var tegundinni á þeim forsendum gefið undirtegundarheitið Cochylis dubitana islandica Björnsson, 1968. Það verður þó að teljast hæpið að raunveruleg undirtegund hafi náð að þróast hér á jafn skammri búsetu og virðist hafa verið um að ræða. Auk þess er breytileiki innan íslenska stofnsins verulegur eins og fram hefur komið.

Flikruvefari (Cochylis dubitana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Flikruvefari (Cochylis dubitana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1973. British Tortriciod Moths. Cochylidae and Tortricidae: Tortricinae. The Ray Society, London. 251 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Hálfdán Björnsson 1968. Íslensk fiðrildi í skógi og runnum. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1968: 22–25.

Náttúrustofa Norðauturlands 2008. Ljósið tendrað. http://www.nna.is/news.asp?ID=630&type=one&news_id=532&menuid= [skoðað 26.5.2010]

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |