Grasvefari (Eana osseana)

Grasvefari - Eana osseana
Mynd: Erling Ólafsson
Grasvefari. 11 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norður-Evrópa og fjalllendi Mið-Evrópu, austur til Síberíu; Færeyjar, N-Ameríka (Alaska, Labrador).

Ísland: Útbreidd tegund og algeng um land allt jafnt á láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Grasvefari finnst í margskonar þurrlendi. Graslendi og valllendi eru kjörlendi hans, einnig er hann algengur í mólendi, kjarrlendi og skóglendi þar sem grös vaxa í skógarbotnum. Hann skríður úr púpu þegar líða tekur á júní, flýgur í mestum fjölda um hásumarið og eru síðustu grasvefararnir enn á ferli í byrjun október. Lirfurnar nærast á rótum grasa (Poaceae) en sjaldan er skaði merkjanlegur. Hálfvaxnar lirfur leggjast í vetrardvala og halda vextinum áfram að vetri liðnum og púpa sig þegar á vorið líður.

Almennt

Grasvefari er án efa algengasta fiðrildi landsins. Þegar mest er um hann um miðbik sumars iðar valllendi af honum á sólríkum dögum. Þó hann finnist víða á hálendinu er hann engan veginn jafnalgengur þar og láglendi. Af fiðrildi að vera er grasvefari lítið fyrir augað, nær einlitur drappgulur á lit.

Grasvefari (Eana osseana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Grasvefari (Eana osseana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1973. British Tortriciod Moths. Cochylidae and Tortricidae: Tortricinae. The Ray Society, London. 251 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |