Tígulvefari (Epinotia solandriana)

Tígulvefari - Epinotia solandriana
Mynd: Erling Ólafsson
Tígulvefari, lirfa. 10 mm. ©EÓ
Tígulvefari - Epinotia solandriana
Mynd: Erling Ólafsson
Tígulvefari. 10 mm. ©EÓ
Tígulvefari - Epinotia solandriana
Mynd: Erling Ólafsson
ígulvefari. 10 mm. ©EÓ
Tígulvefari - Epinotia solandriana
Mynd: Erling Ólafsson
ígulvefari. 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa frá N-Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, Miðausturlönd og austur eftir Asíu, N-Ameríka; Færeyjar.

Ísland: Láglendi um land allt, algengastur um sunnan- og vestanvert landið, á miðhálendinu fundinn við Kárahnjúka (sennilega flækingur þar).

Lífshættir

Birkiskógar eru kjörlendi tígulvefara enda nærast lirfurnar fyrst og fremst á birkilaufum (Betula). Í útlandinu hafa lirfur einnig fundist á víði (Salix), álmi (Alnus), blæösp (Populus tremula) og kirsuberjum (Prunus). Flugtíminn hefst í seinni hluta júlí og nær allt fram í miðjan október. Hámarkið er í seinni hluta ágúst. Eggin brúa vetur og vaxa lirfurnar upp fyrri hluta sumars. Þær spinna saman laufblöð birkitrjánna og éta þau innan frá húsi sínu. Fullvaxnar síga þær til jarðar á spunaþræði og púpa sig í sverðinum í spunahjúp.

Almennt

Talið er að tígulvefari hafi upphaflega borist til landsins af mannavöldum. Ekki verður það samt tímasett með vissu. Þýski skordýrafræðingurinn Otto Staudinger safnaði skordýrum á Þingvöllum árið 1856 án þess að finna þar tígulvefara. Þegar Svíinn Carl H. Lindroth safnaði hér á árunum 1926 og 1929 fann hann tegundina í gróðrarstöð á Akureyri og taldi að hún væri í raun ekki íslensk. Því er líklegt að tígulvefari hafi borist til landsins á fyrri hluta 20. aldar. Hann átti síðan eftir að verða hér mjög útbreiddur og algengur.

Tígulvefari getur reynst nokkur skaðvaldur í birkiskógum, svo og í húsagörðum. Oftast eru skemmdir af hans völdum staðbundnar og ekki endilega víst að þær endurtaki sig að ári. Trén jafna sig því að öllu jöfnu eftir atlögurnar. Nokkur áraskipti eru af fjölda vefaranna, eins og vill verða hjá öðrum fiðrildum sem lifa á birki. Því valda sennilega samkeppni milli tegundanna og sníkjuvespur sem leggjast á lirfur þeirra af breytilegri áfergju.

Tígulvefari er mjög breytilegur á lit, grábrúnn, svarbrúnn, rauðbrúnn, ryðrauður, og þekkist oft á hvítum eða drappleitum tígullaga bletti þegar horft er ofan á aðfellda, hvelfda vængina (sjá myndir). Stundum er bletturinn ógreinilegur en langoftast má sjá votta fyrir honum, þar til vænghreistur hefur slitnað á seinni hluta flugtímans og litmynstur máðst af. Í því ástandi getur hann reynst torgreindur frá barrvefara (Zeiraphera griseana), en þær tegundir verða þá best aðgreindar með skoðun á kynfærum. Tígulvefari er enn líkari slútvefara (Epinotia caprana), en sá er afar fágætur hér og flýgur fyrr um sumarið.

Tígulvefari (Epinotia solandriana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Tígulvefari (Epinotia solandriana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1979. British Tortriciod Moths. Tortricidae: Olethreutinae. British Museum (Natural History), London. 226 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Fauna Europaea. Epinotia solandriana. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=438943 [skoðað 19.10.2011]

Hálfdán Björnsson 1968. Íslensk fiðrildi í skógi og runnum. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1968: 22–25.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105–589.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |