Hnappvefari (Lobesia littoralis)

Hnappvefari - Lobesia littoralis
Mynd: Erling Ólafsson
Hnappvefari. 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa. Frá Ítalíu og Sikiley upp með Atlantshafsströndum norður til Skandinavíu og Finnlands; Bretland til Suðureyja, Orkneyja og Hjaltlandseyja, Færeyjar. Einnig Tékkland.

Ísland: Sjaldgæfur syðst á landinu frá höfuðborgarsvæðinu austur á Breiðamerkursand.

Lífshættir

Bersvæði, melar og sandar, einkum í strandhéruðum, eru kjörlendi hnappvefara og lifir hann þar á geldingahnappi (Armeria maritima). Erlendis eru tvær kynslóðir á sumri. Lirfur fyrri kynslóðar vaxa þá upp snemma sumars ofan í blómhnöppunum og nærast þar á óþroskuðum fræjum eða niðri með ungum blaðsprotum þar sem þær spinna um sig silkihjúp. Fiðrildin fljúga síðan í júní/júlí og lirfur 2. kynslóðar taka við, vaxa upp í visnuðum blómknöppum geldingahnappsins og éta þroskuðu fræin. Ný kynslóð fiðrilda flýgur síðan á haustin og væntanlega brúa eggin veturinn. Ekkert bendir til tveggja kynslóða hér á landi. Hér hefst flugtími fiðrildanna viku af júní og stendur allt fram í miðjan ágúst en flest fljúga í fyrri hluta júlí. Ekki er ljóst hvernig hagar til með uppvöxt lirfanna og vetrardvalann.

Almennt

Hnappvefari er lítt áberandi fiðrildi hér á landi. Hann er fáliðaður og finnst einungis allra syðst á landinu. Hann er frekar smár vefari, ljósdrappleitur á lit með ljósbrúnum beltum yfir framvængina.

Hnappvefari (Lobesia littoralis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hnappvefari (Lobesia littoralis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1979. British Tortriciod Moths. Tortricidae: Olethreutinae. The Ray Society, London. 336 bls.

Karsholt, O. & J. Razowski (ritstj.) 1996. The Lepidoptera of Europe. A Distributonal Checklist. Apollo Books, Stenstrup.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |