Lyngvefari (Acleris maccana)

Lyngvefari -Acleris maccana
Mynd: Erling Ólafsson
Lyngvefari, 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu, á Bretlandseyjum í skosku hálöndunum, staða í Færeyjum óljós, e.t.v. slæðingur. Asía og N-Ameríka (sennilega aðeins norðurslóðir).

Ísland: Láglendi um land allt.

Lífshættir

Kjörlendi á lyngvefari í lyngmóum og lágvöxnu kjarrlendi með bláberjalyngi (Vaccinium), en það er fæðuplanta vefarans. Lirfan vex upp í júní til júlí, spinnur saman lauf bláberjalyngsins og étur þau úr húsi sínu. Fullvaxin púpar hún sig í spunahjúpnum. Fiðrildin skríða úr púpum á haustin og leggjast í vetrardvala. Að vetri loknum komast þau aftur á flug, makast og kvendýrin verpa eggjum sínum á sprota bláberjalyngsins. Lyngvefari hefur því tvo aðskilda flugtíma. Flugtími á haustin er frá mánaðamótum ágúst/september fram í miðjan nóvember, á vorin sennilega frá miðjum mars, þegar snemma vorar, fram í miðjan júní.

Almennt

Þó lyngvefari sé útbreiddur á landinu þá verður hans ekki mikið vart. Hann er á ferli þegar lauf er fallandi á haustin og aftur áður en laufgast á vorin. Hann er samlitur sölnandi gróðrinum og lauflausum greinum og kvistum. Auk þess er hann lítið gefinn fyrir að flögra um, heldur mest kyrru fyrir í kvistgróðrinum og er fljótur að koma sér í hvarf ef hann hrekst upp. Lyngvefari er ekki það algengur að lynggróður skaðist af hans völdum svo merkjanlegt sé.

Lyngvefari er tiltölulega breiður og flatur þar sem hann situr með aðfellda vængi og áþekkur birkivefara (Acleris notana) að því leyti. Þessir tveir nánu ættingjar verða þó auðveldlega aðgreindir. Lyngvefari er mun stærri, framvængirnir dökkgráir eða dökkgrábrúnir, oft með greinanlegu ryðbrúnu belti yfir miðjuna, stundum með dökksilfurgráum, misstórum flekkjum. Um töluverðan breytileika er að ræða, en liturinn er samt aldrei í líkingu við ryðrauðu eða brúnu liti birkivefarans.

Lyngveferi (Acleris maccana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Lyngveferi (Acleris maccana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1973. British Tortriciod Moths. Cochylidae and Tortricidae: Tortricinae. The Ray Society, London. 251 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Fauna Europaea. Acleris maccana. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=439521 [skoðað 24.10.2012]

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |