Gullglyrna (Chrysoperla carnea)

Gullglyrna - Chrysoperla carnea
Mynd: Erling Ólafsson
Gullglyrna. 15 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Tegundin hefur verið talin útbreidd um norðurhvel jarðar, Evrópu, N-Afríku, Asíu og N-Ameríku. Síðar kom í ljós að fyrirbærið er flóknara en svo, þ.e. að um sé að ræða hóp náskyldra tegunda sem ekki verða aðgreindar á útliti heldur á söng sem bæði kyn gefa frá sér til að réttir einstaklingar nái saman til að makast. Útbreiðsla ólíkra „söngvara“ er óljós.

Ísland: Flækingur frá Evrópu sem hefur fundist víða um land frá Breiðuvík og Stykkishólmi á Snæfellsnesi suður um og austur til Seyðisfjarðar. Fáséð á Norðurlandi; Vatnsdalur í Húnavatnssýslu, Siglufjörður. Ekki er vitað hvort allar gullglyrnur sem til landsins berast séu sömu „sönggerðar“, enda verða safneintök ekki greind frekar.

Lífshættir

Fullorðin dýr nærast á frjókornum, blómasafa og hunangsdögg, þ.e. sætum saur blaðlúsa. Lirfur lifa á blaðlúsum. Gullglyrna nær nokkrum kynslóðum á ári og lifir vetur á fullorðinsstigi. Ekki er útilokað að hún auki kyn sitt hérlendis.

Almennt

Gullglyrnu varð fyrst vart hér á landi 28. mars 1947. Þá barst mikill fjöldi með vindi frá Evrópu upp að strönd Breiðamerkursands ásamt ókenndri fiðrildistegund. Þær sáust berast inn yfir Breiðárlón, sem þá var, og falla niður á vatnsflötinn er þær mættu kuldauppstreyminu frá jökulvatninu (frásögn Hálfdáns Björnssonar á Kvískerjum). Sérstaka athygli vekur hve snemma árs þessi atburður varð. Næst fannst gullglyrna í Öræfum 1959 en síðan á Heimaey 1965. Síðar fór hennar að verða vart í auknum mæli og telst hún nú algengur flækingur. Hún berst í mestum fjölda á suðaustanvert landið með vindum síðsumars og á haustin. Hún kemur árlega en fjöldinn er breytilegur. Stundum er hann mikill þegar suðaustlægir vindar blása frá Evrópu. Einnig slæðast gullglyrnur til landsins með varningi utan hefðbundins flækingstíma, en til eru skráð eintök á tímabilinu frá miðjum mars til miðs desember. Það er kunnugt að gullglyrnur hafi orpið hér eggjum en upplýsingar liggja ekki fyrir um árangur þess. Ekki hefur heldur fengist staðfesting á því að gullglyrna lifi af vetur hér á landi. Gullglyrna er einkar fallegt skordýr, fagurgræn á bolinn með gula rönd eftir honum endilöngum frá höfði og aftur. Stórir vængirnir eru gljáandi tærir með áberandi fínriðnu æðaneti. Hvelfd gulgræn og gljáandi augun minna á gullmola og dregur tegundin íslenskt heiti sitt af þeim.

Gullglyrna (Chrysoperla carnea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Gullglyrna (Chrysoperla carnea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Henry, C.S., S.J. Brooks, P. Duelli & J.B. Johnson 2002. Discovering the True Chrysoperla carnea (Insecta: Neuroptera: Chrysopidae) Using Song Analysis, Morphology, and Ecology. Annals of the Entomological Society of America 95:172–191.

Chapman, J.W., D.R. Reynolds, S.J. Brooks, A.D. Smith & I.P. Woiwod 2006. Seasonal variation in the migration strategies of the green lacewing Chrysoperla carnea species complex. Ecological Entomology 31: 378–388.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |