Birkiglyrna (Wesmaelius nervosus)

Birkiglyrna - Wesmaelius nervosus
Mynd: Erling Ólafsson
Birkiglyrna. 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrasía; N- og M-Evrópa allt suður til Spánar og Korsíku, Madeira, Sibiría; Færeyjar, Grænland.

Ísland: Nokkuð algeng á láglendi um land allt, en fágæt á hálendinu; Þjórsárver, Vesturöræfi.

Lífshættir

Birkiskógar og kjarr, víðikjarr, hrísmóar og húsagarðar eru kjörlendi birkiglyrnu. Hún finnst allt sumarið frá vori til hausts. Þekktur flugtími er frá seint í apríl til loka september. Talið er að um tvær kynslóðir sé að ræða yfir sumarið. Lirfurnar nærast á blaðlúsum.

Almennt

Birkiglyrna dregur heitið af stórum hvelfdum augum og kjörlendinu. Yfirleitt fer lítið fyrir henni en hún sést helst á einkennandi léttu flugi á lygnum kvöldum í birkiskógum. Hún er auðþekkt á stórum vængjum með þéttriðnu æðaneti sem aðfelldir mynda ris yfir bolnum. Stundum má finna lirfur í nokkrum fjölda á birkilaufum, sjá þær stinga löngum framstæðum og holum kjálkum sínum inn í blaðlýsnar og tæma úr þeim innvolsið. Hver og ein lirfa fargar fjölda blaðlúsa á uppvaxtarskeiðinu og á birkiglyrna því drjúgan þátt í að halda blaðlúsum í skefjum.

Birkiglyrna (Wesmaelius nervosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Birkiglyrna (Wesmaelius nervosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fristrup, B. 1942. Neuroptera and Trichoptera. Zoology of Iceland III, Part 43–44. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 23 bls.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |