Engisprettnaætt (Acrididae)

Almennt

Ættin er af undirættbálkinum Caelifera innan beinvængjanna en þar eru hinar hefðbundnu engisprettur. Þessi ætt er sú tegundaríkasta í undirættbálkinum með um 10.000 þekktum tegundum í heiminum. Í Evrópu eru um 330 tegundir skráðar í 83 ættkvíslum.

Engisprettur eru frá meðalstórum til mjög stórra skordýra, frá 9-80 mm þó flestar tegundir séu á bilinu 15-30 mm. Stórar engisprettur eru því með stærstu skordýrum. Margar eru þannig litar að þær leynist sem best í búsvæðum sínum, þ.e. brúnar, grænbrúnar, grænar. Þó eru sumar æði skrautlegar. Opin svæði og graslendi henta flestum engisprettum þar sem hægt er að leynast í gróðri og forða sér í skyndingu. Til þess eru þær vel úr garði gerðar. Sumar eru í skógum eða í allskyns öðrum kjörlendum.

Bolurinn er langur og nokkuð jafnbreiður frá höfði og aftur, gjarnan frekar hliðflatur. Höfuð stórt niðurteygt, mun styttra en hátt, með egglaga augu efst á hliðunum og tiltölulega stutta fálmara. Skjöldur yfir frambol heill með sýnilegri  þrískiptingu frambolsins og koma rætur vængja undan skildi fremsta liðsins, nema um sé að ræða vængjalausar tegundir.  Framvængir eru leðurkenndir, mjóir og beinir, liggja eins og risþak yfir afturbolnum, ná stundum vel aftur fyrir bolinn, mun styttri hjá sumum tegundum, stundum mislangir innan tegunda. Undir þeim eru samanbrotnir himnukenndir flugvængir, breiðastir næst vængrótum en mjókka til endanna, stundum afar litskrúðugir. Afturfætur langir og sterkir stökkfætur, lærliðir einkar öflugir, kylfulaga, breiðastir næst bolnum, langliðirnir alsettir sterkum stuttum burstum. Ef heyrnarskynfæri (hljóðhimna) er til staðar þá er það staðsett fremst á hliðum fremsta afturbolsliðs. Varpbroddur kvendýra stuttur og þykkur.

Egnisprettur éta laufblöð plantna og grös, sumar sérhæfðar, aðrar leggjast á flest sem er í boði, éta jafnvel dauð blöð á jörðu eða aðrar veikburða engisprettur ef harðnar á dal. Sumar tegundir eru miklir skaðvaldar á gróðri og geta spillt uppskeru á stórum landsvæðum þegar þær fara um milljónum saman og éta allt sem fyrir verður. Engisprettufaraldrar eru alkunnir og þekktir langt aftur í aldir.

Engisprettur lifa ekki á Íslandi en þær slæðast af og til með varningi. Aðeins ein tegund hefur verið nafngreind en nokkrar til viðbótar eru varðveittar ógreindar í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |