Krybbaætt (Gryllidae)

Almennt

Ættin er af undirættbálkinum Ensifera innan beinvængjanna. Þær skilja sig vel frá hefðbundnum engisprettum af undirættbálki Caelifera. Krybbur eru dreifðar um heim allan á milli 55. breiddargráðanna. Fjölbreytileikinn er mestur í hitabeltislöndum. Alls eru þekktar yfir 900 tegundir. Í Evrópu eru um 80 tegundir í 28 ættkvíslum.

Krybbur eru allt að 5 cm langar. Bolurinn er að mestu sívalur, höfuð kúlulaga, og afar langir fínir fálmarar. Aftan við höfuð er stór bogadreginn sléttur bakskjöldur yfir fremsta frambolslið, standa leðurkenndir framvængir aftur undan honum og leggjast yfir þykkan afturbolinn. Undir þeim eru afturvængir, þunnir og samanbrotnir þegar krybban flýgur ekki. Margar tegundir eru ófleygar. Á afturbol eru tvö löng liðskipt skott (cerci) vel aðskilin, kvendýr auk þess langan mjóan sívalan varpbrodd sem er fullt eins langur og bolurinn. Afturfætur eru stórir sterkir stökkfætur með sérstaklega þykka lærliði og langliði alsetta sterkum göddum.

Krybbur eru ekki síst þekktar fyrir zirrp-zirrp hljóðin sem karldýrin gefa frá sér með því að núa saman leðurkenndu framvængjunum. Það gera þau til að laða til sín kvendýr. Krybbur eru næmar á hljóðbylgjur og nota hljóðhimnuskynfæri á langliðum framfóta til að nema þær. Sumar tegundir syngja ekki.

Krybbur finnast víða, í graslendi, runnum og skógum, votlendi og á ströndum, einnig í hellum og eru þær nánast alætur. Krybbur eru oft í húsum, í vörugeymslum og myrkum kjöllurum. Þær eru náttförular og láta þá óspart í sér heyra.

Krybbur lifa ekki á Íslandi en slæðast af og til með varningi. Tvær tegundir hafa verið nafngreindar en nokkuð er af ógreindum eintökum í safni Náttúrufræðistonunar Íslands.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |