Runnsprettnaætt (Tettigoniidae)

Almennt

Ættin er af undirættbálkinum Ensifera eins og krybburnar. Hún er útbreidd um heim allan og tegundarík, með um 6.400 þekktar tegundir. Í Evrópu finnast 222 tegundir runnsprettna sem skiptast í 46 ættkvíslir. Fjölbreytileikinn er mestur í hitabeltinu. Sem dæmi má nefna að á Amazonsvæðinu eru þekktar um 2.000 tegundir. Margar finnast einnig í tempruðu loftslagi en færri norðar.

Stærðarmunur er mikill á tegundum, þær minnstu aðeins um 5 mm en stærstu 130 mm. Þær litlu lifa yfirleitt á þurrari og harðbýlli stöðum, eru kvikari, þroskaferlið hraðara og eru ekki eins þurftafrekar. Runnsprettur eru líkar engisprettum á ýmsan hátt, með aftasta fótapar sem afar langa, oftast granna stökkfætur. Eru ýmist með vængi eða vænglausar, framvængir stinnir stundum styttri en afturbolur, stundum mun lengri, og undir þeim himnukenndir breiðir flugvængir samanbrotnir þegar ekki í notkun. Kvendýr oft með afar sterka sverð- eða sveðjulaga varppípu. Varppípur eru breytilegar að gerð og fara eftir varpháttum.

Runnsprettur þekkjast auðveldlega frá engisprettum á löngum grönnum fálmurum andstætt stuttum og tiltölulega þykkum fálmurum engisprettna. Þær eru flestar í felulitum en einnig finnast litskrúðugar tegundir þar sem litirnir hafa fælniáhrif. Margar tegundir hafa tekið á sig form og liti úr umhverfinu, til dæmis form laufblaða og kvista.

Runnsprettur lifa í trjám og runnum, nærast á ýmsum plöntuhlutum, laufum, blómum, fræjum eða berki. Sumar eru rándýr sem veiða önnur skordýr eða snigla, jafnvel lítil hryggdýr eins og snáka og eðlur. Tegundirnar eru flestar náttförular og láta karldýrin vel í sér heyra á sumrin og snemma á haustin. Þau gefa þá frá sér hávær hljóð með því að nudda saman líkamspörtum og lokka þannig til sín kvendýr. Hávaðinn kann að vera ærandi.

Líftími runnsprettna spannar um ár en fullorðnu dýrin sjást oftast síðsumars. Kvendýrin verpa eggjum seint á sumrin í jarðveg, á fæðuplönturnar eða holur í trjám.  Algengast er að ungviði líkist fullorðnu dýrunum en hjá sumum tegundum líkist það allt öðru og óskyldu til að verjast betur, til dæmis köngulóm eða blómum.

Engin tegund runnsprettna lifir á Íslandi. Nokkrar tegundir hafa slæðst til landsins með varningi, hafa aðeins tvær þeirra verið nafngreindar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |