Straumbytta (Potamophylax cingulatus)

Straumbytta - Potamophylax cingulatus
Mynd: Erling Ólafsson
Straumbytta. 19 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa frá norðri til suðurs og austur í Rússland; Færeyjar.

Ísland: Láglendi um land allt og miðhálendið austanvert.

Lífshættir

Lirfur straumbyttu alast upp í straumvatni. Fullorðnu dýrin finnast fyrst og fremst í námunda við ár og læki þó vissulega kunni þau að berast af leið. Litlar lirfur byggja hús úr plöntuleifum en fljótlega skipta þær yfir í gróf sandkorn og gera sér bæði stærri og grófgerðari hús en aðrar vorflugur hér á landi. Lirfurnar skríða um á grýttum botni straumvatnanna og veiða sér önnur smádýr til matar. Fullvaxnar lirfur leita úr mesta straumþunganum til að koma sér fyrir neðan á steinum og festa húsin við þá. Þær loka þá húsunum í báða enda og púpa sig inni í þeim. Að öllum líkindum brúa lirfurnar veturinn, sennilega á ýmsum þroskastigum. Þroskatíminn tekur eitt ár.

Aðalflugtíminn í M-Evrópu er fyrr en á norðlægari slóðum. Hér á landi er sennilega nokkur munur á flugtíma norðanlands og sunnanlands. Straumbytta veiðist gjarnan í ljósgildrur eins og aðrar vorflugur. Slíkar gildrur henta því vel til að fylgja flugtíma tegundanna eftir. Ljósgildra sem staðsett er á lækjarbakka undir Eyjafjöllum hefur sýnt að fullorðnu vorflugurnar eru sennilega á ferli allt árið þar um slóðir þegar lofthiti leyfir. Einn veturinn var ljós gildrunnar tendrað í byrjun febrúar. Straumbyttur tóku strax að veiðast og veiddust allmargar reglulega til vorsins, þegar flugtíminn fór í gang fyrir alvöru. Í byrjun maí fer flugkúrfan að stíga og nær flugið hámarki um miðjan júní. Frá seinni hluta ágúst og fram undir miðjan október hefur straumbyttan hægt um sig en flýgur svo upp aftur í nokkrum mæli í lok október og fram eftir nóvember. Lengur hefur flugtímanum ekki verið fylgt eftir.

Almennt

Straumbytta var lengi vel óþekkt hér á landi. Árið 1974 uppgötvaði Gísli Már Gíslason nokkur lirfuhús sem varðveitt voru á Náttúrugripasafninu á Akureyri. Þeim hafði verið safnað í Grafarlandaá í Mývatnssveit þrem árum áður. Rannsóknir Gísla í kjölfarið leiddu í ljós, að tegund þessi var útbreidd í ám og lækjum um allt Norðaustur- og Austurland. Síðar varð þess vart að straumbytta var að dreifast hægt og bítandi vestur eftir landinu og náði að loka hringnum á endanum á Vesturlandi. Að öllum líkindum hefur tegundin borist til landsins með vindum frá Bretlandseyjum eða Noregi, jafnvel Færeyjum, tekið land á Austurlandi og dreifst þaðan til vesturs.

Straumbytta er með stærstu vorflugum hér á landi og nokkuð auðþekkt frá öðrum tegundum. Grábrúnir framvængir hafa mjúka áferð og einkennandi ljóst merki á miðjum vængfleti. Þeir eru ávalir í endann en ekki lítillega odddregnir eins og hjá flestum öðrum tegundum.

Straumbytta (Potamophylax cingulatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Straumbytta (Potamophylax cingulatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Gísli Már Gíslason 1975. Ný vorfluga (Potamophylax cingulatus [Stephens]) fundin á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 44: 129–139.

Gísli Már Gíslason 1978. Íslenskar vorflugur (Trichoptera). Náttúrufræðingurinn 48: 62–72.

Gísli Már Gíslason 1979. Identification of Icelandic caddis larvae, with descriptions of Limnephilus fenestratus (Zett.) and L. picturatus McL. (Trichoptera: Limnephilidae, Pgryganeidae). Ent. scand 10: 161–176.

Gísli Már Gíslason 1981. Distibution and habitat preferences of Icelandic Trichoptera. Í: G.P. Moretti (ritstj.), Proc. of the 3rd Int. symp. on Trichoptera. Series ent. 20: 99–109.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |