Starbyttuætt (Phryganeidae)

Almennt

Ættin er dreifð um norðurhvel. Um 75 tegundir eru skráðar í 15 ættkvíslum, í Evrópu 20 tegundir í 7 ættkvíslum.

Frekar stórar til mjög stórar vorflugur, flestar á bilinu 14-25 mm en algengari tegundir yfirleitt yfir 20 mm. Stærsta tegundin er um 4 cm með 8 cm vænghaf, en stærstu vorflugur tilheyra þessari ætt. Þó flestar tegundir séu einlitar gulbrúnar, brúnar, gráar, þá eru ýmsar tegundir afar skrautlegar.

Vaxtarform er áþekkt vorflugum af grábyttuætt (Limnephilidae), sitja örvaroddslaga með breikkandi vængi aftur að ávölum vængendum. Æðarnar eru hins vegar grófgerðari hjá þessari ætt, gjarnan dökkar, og æðakerfið því skýrt og greinilegt.

Eggjum verpir kvendýr á vatnsyfirborð þar sem þau reka um og stranda á endanum við bakkana. Þar klekjast þau og lirfurnar færa sig niður að botni. Þær byggja um sig langt sívalt hús úr grasstráum og plöntubútum sem þær vefja um sig í spíral eða hringi. Sumar nota sandkorn. Lirfurnar halda sig einkum neðst við stöngla vatnaplantnanna. Þær eiga það til að bregða sér út úr húsum sínum, stundum hrekja þær hver aðra út og taka hús yfir. Bolur lirfanna er því sterkari en bolur lirfa grábyttuættar. Höfuðskel og frambolur er gjarnan með áberandi svörtum strikum eða mynstri. Púpur skríða upp á bakkana til að klekjast.

Á Ísandi finnst ein tegund ættarinnar og telst hún varla algeng þó hún hafi fundist allvíða um land.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |