Silfurskottuætt (Lepismatidae)

Almennt

Í heiminum eru þekktar um 190 tegundir af þessum frumstæðu skordýrum. Í Evrópu er 41 tegund skráð í 6 ættkvíslum.

Algengari tegundirnar eru 8-12 mm langar en þær lengstu allt að 19 mm. Bolurinn er langur,  tiltölulega flatvaxinn, frumstæða liðskipting bolsins greinileg, þrír áþekkir stórir frambolsliðir, minni afturbolsliðir aftan við þá sem mjókka jafnt aftur. Á afturenda eru þrjú löng og mjó liðskipt skott, álíka löng, þar sem miðskottið liggur beint aftur en hin tvö (cerci) beinast út til hliðanna. Ættin aðgreinist frá öðrum ættum ættbálksins á því að tegundirnar hafa samsett augu og eru þau vel aðskilin. Langir þráðlaga fálmara mjókka jafnt út til enda, álíka langir bolnum. Bolurinn er þakinn fínum hreisturflögum. Skotturnar taka litlum sem engum myndbreytingum á þroskaferlinu.

Margar tegundir finnast innanhúss og eru sumar nafntogaðar. Flestar tegundir eru alætur sem lifa á flestu tilfallandi lífrænu jafnt innanhúss sem utan. Úti geta þær lagst á hræ og eru fléttur vinsæl fæða. Utanhússtegundir lifa undir t.d. trjáberki, í rotnandi laufum, hellum, maurabúum, jafnvel í eyðimörkum. Þær eru yfirleitt ljósfælnar og athafna sig í myrkri.

Á Íslandi hafa tvær tegundir ættarinnar fundist í húsum og er önnur hér landnemi frá seinni árum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |