Fýll (Fulmarus glacialis)

Útbreiðsla

Fýllinn er mjög algengur varpfugl á norðlægum slóðum og oft talinn næstalgengasti fugl landsins á eftir lunda (sjá þó umfjöllun um þúfutittling). Hann verpur víða með ströndum og sums staðar inn til landsins (sjá kort). 

Stofnfjöldi

Talið er að stofninn telji um 1,2 milljónir para og verpa þau langflest á Vestfjörðum (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun).

Lýsing

Fýlar sem verpa hér við land eru af ljósa litarafbrigðinu. Dökkir fýlar (kolapiltar) sjást hér árlega en eru sjaldgæfir gestir frá varpstöðum í norðri.

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
EN EN LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 30,7 árTímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985–2078

Talningar sýna að fýl fækkar hér við land líkt og annars staðar í Evrópu en þar urðu menn varir við þá þróun upp úr 1980. Fram að því hafði fýl fjölgað um langt skeið. Í stóru svartfuglabjörgunum fækkaði fýlum um 40% á árunum 1983/86–2005/09 eða 2,1% á ári (Arnþór Garðarsson o.fl., 2011). Hefur sú þróun haldið áfram og á enn meiri hraða, t.d. fækkaði fýlum um 45% á föstu sniði í Látrabjargi 2009–2017 (Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017) sem samsvarar um 7,47% á ári. Mjög góð samsvörun er milli talninga í Látrabjargi og Hornbjargi (Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017) og því má gera ráð fyrir að það sama eigi við svæðið um frá norðanverðum Breiðfirði allt til Hornbjargs þar sem meirihluta fýla verpur hér á landi (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun). Ef stofnbreytingar í Látrabjargi (sem vísitala fyrir rétt tæplega helming stofnsins) er framreiknuð fyrir viðmiðunartímabilið 1985–2078 þýðir yfir 90% fækkun eða 3,46% á ári. Langtímabreytingar á öðrum landsvæðum er erfiðara að túlka, nema ljóst er að fýll hefur ekki náð sér á strik í Skoruvíkurbjargi eftir stofnhrun upp úr síðustu aldamótum (Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017). Í ljósi þessa mætti flokka fýl sem tegund í bráðri hættu (CR, A4abc). Hin mikla fækkun í fýlabyggðum á allra síðustu árum er talsvert umfram náttúrulega dánartölu fullorðinna fugla. Því er líklegt að fækkunin stafi af stórum hluta af því að hlutfallslega færri fýlar verpi nú fremur en að dánartalan hafi skyndilega hækkað mikið.  Fýll er því flokkaður hér sem tegund í hættu (EN, A4abc).

Viðmið IUCN: A4abc

A4. Fækkun í stofni ≥50% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:(a) beinni athugun,(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Fýll var ekki í hættu (LC).

Global position

Fýll var settur á evrópskan válista sem tegund í hættu (EN) árið 2015 þar sem honum hafði fækkað hratt síðustu 30 árin á undan.

Verndun

Fýll er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka fýls taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða fýl frá 1. september til 15. mars.

Válisti

Alls eru 38 fýlabyggðir flokkaðar sem alþjóðlega mikilvægar og verpa um 82% íslenska stofnsins innan slíkra svæða.

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 ii: heimsstofn/global 75.000 pör/pairs (Bird­Life 2016)

B1 ii: A4ii

Töflur

Mikilvægar fýlabyggðir á Íslandi (≥10.000 pör) – Important colonies of Fulmarus glacialis in Iceland*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Breiðafjörður SF-V_8 B 36.434 1975–2013 3,0 A4iii, B2
Mýrarhyrna  SF-V_9 B 15.399 2014 1,3 A4iii
Kirkjufell  SF-V_10 B 11.468 2013 1,0 A4iii
Sandsfjöll  SF-V_12 B 11.035 2013 0,9 A4iii
Látrabjarg  SF-V_13 B 99.894 2009 8,3 A4ii, A4iii, B1ii, B2
Blakkur SF-V_15 B 51.571 2013 4,3 A4iii, B2
Tálkni SF-V_16 B 29.744 2013 2,5 A4iii, B2
Selárdalshlíðar S SF-V_17 B 25.428 2013 2,1 A4iii
Selárdalshlíðar N SF-V_18 B 13.733 2013 1,1 A4iii
Skeggi SF-V_19 B 10.339 2013 0,9 A4iii
Tóarfjall  SF-V_20 B 35.537 2013–2014 2,9 A4iii, B2
Barði SF-V_21 B 17.380 2014 1,4 A4iii
Hrafnaskálarnúpur SF-V_22 B 10.540 2014 0,9 A4iii
Sauðanes SF-V_23 B 12.380 2014 1,0 A4iii
Göltur–Öskubakur SF-V_24 B 12.680 2014 1,1 A4iii
Stigahlíð–Deild SF-V_25 B 33.541 2014 2,8 A4iii, B2
Vébjarnarnúpur  SF-V_29 B 14.960 2014 1,2 A4iii
Grænahlíð SF-V_30 B 15.400 2014 1,3 A4iii
Ritur SF-V_31 B 12.278 2007 1,0 A4iii
Kögur SF-V_32 B 27.360 2014 2,3 A4iii
Kjalarárnúpur SF-V_33 B 19.167 2014 1,6 A4iii
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg SF-V_35, 36 B 35.613 2007 3,0 A4iii, B2
Smiðjuvíkurbjarg  SF-V_36 B 26.212 2013 2,2 A4iii
Geirhólmur SF-V_37 B 13.010 2013 1,1 A4iii
Tindastóll SF-N_1 B 29.714 2015 2,5 A4iii
Hvanndalabjörg SF-N_5 B 34.264 2013 2,8 A4iii, B2
Ólafsfjarðarmúli SF-N_6 B 27.356 2013 2,3 A4iii
Melrakkaslétta SF-N_12 B 17.491 2008, 2014 1,5 A4iii
Langanesbjörg SF-N_14 B 13.774 2006, 2014 1,1 A4iii
Viðvíkurbjörg SF-A_1 B 56.415 2015 4,7 A4iii, B2
Skálanesbjörg SF-A_3 B 11.503 2014 1,0 A4iii
Gerpir SF-A_5 B 22.659 2015 1,9 A4iii
Hvalnesfjall–Lón SF-A_12 B 12.904 2015 1,1 A4iii
Vestrahorn–Fjarðarfjall SF-A_13 B 17.000 2014 1,4 A4iii
Fagridalur–Vík SF-S_1 B 13.813 2014 1,1 A4iii
Eyjafjöll: Steinafjall SF-S_2 B 10.525 2015 0,9 A4iii
Eyjafjöll: Írá–Seljaland SF-S_3 B 20.091 2015 1,7 A4iii
Vestmannaeyjar SF-S_4 B 38.377 2006–2008 3,2 A4iii, B2
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 66.049   5,5  
Alls–Total     983.040   81,5  
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl., 2019.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson, Kristján Lilliendahl og Guðmundur A. Guðmundsson 2019. Fýlabyggðir á Íslandi 2013–2015. Bliki 33: 1–14.

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017. Vöktun bjargfuglastofna 2017. Framvinduskýrsla. Náttúrustofa Norðausturlands. NNA-1708.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Fýll (Fulmarus glacialis)

Samantekt á Ensku

Fulmarus glacialis is the second most common breeding bird in Iceland with 1.2 million pairs; 38 colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and 81.5% of the population breeds within important bird areas (IBA).

Icelandic Red list 2018: Endangered (EN, A4abc), uplisted from Least concern (LC) in 2000.