Melrakki (Vulpes lagopus)

Útbreiðsla

Melrakkinn er algengur og útbreiddur víða umhverfis norðurheimskautið en fágætur í Skandinavíu. Á Íslandi eru melrakkar útbreiddir á hálendi og láglendi um allt land. Þéttleiki er mestur á Vestfjörðum, sérstaklega við fuglabjörg, en einnig við gjöfular rekastrendur. Minnstur þéttleiki er á sendnum svæðum og berangri þar sem lítið er um bráð.

Stofnfjöldi

Íslenski refastofninn sker sig frá öðrum stofnum tegundarinnar þar sem hann er ekki tengdur með landi eða hafís (Dalén o.fl. 2005, Geffen o.fl. 2007). Stofnstærð var í sögulegu lágmarki rétt fyrir 1980, um 1.200 dýr, en óx uppfrá því og var metin tæp 9.000 dýr að haustlagi árið 2007. Eftir það virðist sem stofninn hafi fallið og var kominn niður fyrir 5.000 dýr árið 2011 en rétti úr kútnum og hefur verið í nokkuð stöðugum vexti eftir það. Hauststofninn var metinn allt að 7.000 dýr árin 2011–2017 en tæplega 8.700 dýr árið 2018.

Endurskoðaðir útreikningar benda til þess að áður birt stofnstærð fyrir árin 2007–2008 (11.000 dýr, Páll Hersteinsson 2010) hafi verið ofmetin. Ofmat grundvallast á því að þegar stofnstærð var birt, voru ekki næg gögn til að styðja við forsendur. Fall stofnsins eftir hámarkið 2007 var 44,8% á árunum 2007–2011, þegar stofninn var í lágmarki (14,9% á ári). Vöxtur refastofnsins frá 2011 til 2018 var 80,6% eða 8,5% á ári en að framansögðu má gera ráð fyrir að stærð refastofnsins fyrir árið 2018 sé einnig ofmetin og vöxturinn því hægari en tölur benda til. Ennfremur ber að geta þess að vegna þessarar óvissu í gögnunum eru öryggismörkin ávallt víð fyrir nýjasta tímabilið (Ester R. Unnsteinsdóttir 2014, 2018, 2021).

Lífshættir

Refir eru rándýr og á matseðlinum hérlendis eru m.a. fuglar, egg, hagamýs og ýmiskonar hryggleysingjar. Þeir eru ekki matvandir og neyta alls þess sem ætilegt getur talist, þar á meðal gömul dýrahræ sem þeir hafa safnað og grafið sem forða.

Nánar um lífshætti melrakka.

Lýsing

Tófan er smávaxinn refur og eru íslenskir steggir að meðaltali um 58 cm að lengd og 3,6–4,3 kg að þyngd en læður að meðaltali 55 cm langar og vega 3,2–3,7 kg. Á Íslandi eignast tófur fremur stóra yrðlinga; við got eru þeir um 80 g og þeir geta náð fullri stærð á fjórum mánuðum. Refir verða kynþroska á fyrsta vetri, fengitíminn í er í mars og flestir yrðlingar fæðast í seinnihluta maí. Einkvæni er ríkjandi og parið heldur saman meðan bæði lifa (hámarksævilengd á Íslandi er 12 ár). Melrakkar eru annað hvort hvítir eða mórauðir en einnig eru til dýr sem eru ljósmórauð (bleik) en slíkt er sjaldgæft. Mórauði liturinn er algengari en sá hvíti á strandsvæðum. Á Vestfjörðum er hlutfall þeirra allt að 80% en hvítum refum fer hlutfallslega fjölgandi eftir því sem austar dregur. Hvítir melrakkar eru næstum alhvítir að vetri en að sumarlagi eru þeir tvílitir, grábrúnir á baki og ljósir á kvið. Langflestir melrakkar í heiminum eru hvítir (98%) en á Íslandi eru aðeins um 30% refa af hvíta litarafbrigðinu.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC CR LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 5,1 ár. Tímabil sem mat miðast við er 2003-2018 (3 kynslóðir). Á þeim tíma varð bæði fjölgun og fækkun í stofninum. Í heildina fjölgaði refum um 48,2% eða um 2,6% árlega. Niðurstaða flokkunar er því sú að tegundin sé ekki í hættu (LC) samkvæmt viðmiðum IUCN.

Global position

Melrakkar eru ekki í útrýmingarhættu (LC) á heimsvísu en eru taldir í bráðri hættu (CR) í Evrópu. Vegna þess hve fáliðuð tegundin er í Skandinavíu ber Ísland ábyrgð á yfir 90% þeirra refa sem halda til á Norðurlöndum. Svalbarðastofninn, sem er á ábyrgð Noregs, er þó ekki í hættuflokki enda verið stöðugur um árabil.

Ógnir

Engin lífshættuleg sníkjudýr og sjúkdómar eru þekkt sem valdið gætu vanhöldum í stofninum. Sýnt hefur verið fram á hátt magn kvikasilfurs í tófum við strendur Íslands en ekki er vitað hvaða áhrif slík mengun og/eða sníkjudýraálag hefur á viðgang stofnsins til lengri tíma. Vaxandi álag virðist vera vegna mikils ágangs ferðamanna á greni á grenjatíma á nokkrum svæðum. Athuganir benda til þess að foreldrar sinni síður fæðugjöfum til yrðlinga þar sem þetta á við, sem getur haft neikvæð áhrif á viðgang stofnsins. Refaveiðar eru stundaðar um allt land og hefur svo verið um aldir. Ekki er talið að refastofninn sé í hættu af völdum ofveiði en miklar sveiflur og breytt aldurssamsetning í afla á síðari árum gætu verið vísbendingar um að veiðiálag hafi tekið breytingum.

Verndun

Á Íslandi eru refir friðaðir samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og sama gildir um greni á grenjatíma. Í náttúruverndarlögum nr. 60/2013, er ákvæði um að varðveita erfðafræðilega fjölbreytni tegunda og tryggja ákjósanlega verndarstöðu þeirra í náttúrulegum búsvæðum sínum. Á þetta m.a. við um refi en villidýralögin kveða einnig á um að tryggja skuli viðgang refastofnsins. Tófan er skráð í II. viðauka Bernarsamningsins, sem Ísland á aðild að, og fylgja því skuldbindingar um að tegundinni séu tryggð verndarsvæði. Friðland Hornstranda er mikilvægasta verndarsvæði refa á Íslandi. Stærð þess er 580km2 og þar eru að jafnaði 45 pör með óðul (Páll Hersteinsson o.fl. 2000). Það er eitt óðalspar á hverjum 12.9km2 að jafnaði en breytileiki er mikill innan svæðisins. Í Snæfellsnesþjóðgarði eru um 4-6 pör með yrðlinga árlega (Munnleg heimild Róbert A. Stefánsson). Önnur griðlönd refa eru minniháttar en líklega eru ekki fleiri en 6-10 pör samtals innan þeirra.

Ráðherra hefur heimild til að veita undanþágu frá friðun til varnar tjóni. Af þessum sökum eru refaveiðar stundaðar um allt land, nema á þeim friðlýstu svæðum þar sem slíkt er sérstaklega bannað. Veiðarnar eru að mestu á kostnað sveitafélaga með framlagi ríkisins undir eftirliti Umhverfisstofnunar. Fyrirkomulag veiða er skv. reglugerð um refa og minkaveiðar (435/1995). Árleg veiði á tímabilinu 2006–2016, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun, var 3.750 fullorðin dýr og 1.870 yrðlingar að jafnaði en meint tjón hefur aldrei verið metið.

Myndir

Heimildir

Angerbjörn, A. & Tannerfeldt, M. 2014. Vulpes lagopus. The IUCN Red List of Threatened Species 2014: e.T899A57549321. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2014-2.RLTS.T899A57549321.en. Downloaded on 22 October 2018.

Dalén, L., E. Fuglei, P. Hersteinsson, C.M.O. Kapel, J.D. Roth, G. Samelius, M. Tannerfeldt og A. Angerbjörn 2005. Population history and genetic structure of a circumpolar species: the arctic fox. Biological Journal of the Linnean Society 84: 79–89.

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2014. Íslenski refastofninn á niðurleið. Fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands. https://www.ni.is/sites/ni.is/files/atoms/files/Stofnmat-a-refum_oktober-2014.pdf [sótt 22.10.2018].

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2018. Refastofninn stendur í stað. Fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands. https://www.ni.is/sites/ni.is/files/atoms/files/stofnmat-a-refum_januar-2018.pdf.pdf [sótt 22.10.2018].

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2021. Refastofninn réttir úr sér. Fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands. https://www.ni.is/sites/ni.is/files/atoms/files/frettatilkynning_stofnmat-a-refum_mai-2021.pdf [sótt 21.12.2021].

Geffen, E., Waidyaratne, S., Dalén, L., Angerbjörn, A., Vila, C., Hersteinsson, P., Fuglei, E., White, P.A., Goltsman, M., Kapel C.M.O. og R.K. Wayne. 2007. Sea ice occurrence predicts genetic isolation in the Arctic fox. Molecular Ecology 16: 4241-4255.

Páll Hersteinsson (2010). Íslenska tófan. Í: Veiðidagbók 2010. Bjarni Pálsson (ritstj.). Umhverfisstofnun, Akureyri. Bls. 10-15.

Páll Hersteinsson, Þorvaldur Þ. Björnsson, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Anna Heiða Ólafsdóttir, Hólmfríður Sigþórsdóttir og Þorleifur Eiríksson 2000. Refir á Hornströndum Greni í ábúð og flutningur út úr friðlandinu. Náttúrufræðingurinn 69: 131-142.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir september 2018, október 2018, desember 2021.

Biota

Tegund (Species)
Melrakki (Vulpes lagopus)

Samantekt á Ensku

Vulpes lagopus population in Iceland has little or no connection to other fox populations through sea-ice (Dalén et al. 2005, Geffen et al. 2007). Revisited annual population estimate for the period 1979-2018 supports the former published minimum of 1268 foxes in 1979. Furthermore, that the peak in 2007 (>10.000 foxes) was overestimated (Hersteinsson 2010, Unnsteinsdóttir 2014, 2018) due to lack of sufficient data to fulfill the assumptions of the model. The revisited estimate suggest that a peak of 8700 foxes was reached in 2007. The population appears to have fluctuated considerably in the years of three generations that are taken into consideration for the IUCN criteria. In this period, the population size rose from 5848 foxes in 2003 to a peak of 8700 foxes in 2007 and then declined to 4799 foxes in four years, which corresponds to an annual decline by 14.9%. In 2012 the population rose again and reached 8668 foxes in 2018, or by 8.45% per year. As the population remained increasing in general, during the period of three generations of the estimate (2003–2018), the species is regarded as least concern (LC), according to IUCN criteria.