Hnúfubakur (Megaptera novaeangliae)

Útbreiðsla

Hnúfubakur er útbreiddur um öll heimshöfin allt frá hitabeltinu að ísjaðri heimskautasvæða. Hann er fardýr sem heldur sig á köldum hafsvæðum við fæðunám á sumrin en ferðast til hlýrri svæða á haustin. Útbreiðsla hnúfubaks er að mestu bundin við landgrunn nema á fartíma þegar tegundin sést oft fjarri ströndum. Á sumrin má sjá hnúfubak allt í kringum Ísland. Þótt meginhluti dýranna fari suður á bóginn á haustin er nokkuð um hnúfubak að vetrarlagi hér við land og virðist hann fylgja loðnugöngum. 

Stofnfjöldi

Að minnsta kosti tveir stofnar hnúfubaka eru í Norður-Atlantshafi með tímgunarsvæði í Karíbahafi og við Grænhöfðaeyjar. Á sumrin heldur hnúfubakurinn sig að mestu á sex tiltölulega vel afmörkuðum landgrunnssvæðum í Norður-Atlantshafi; í Maine flóa, St Lawrence flóa, við Nýfundnaland og Labrador, Vestur Grænland, Ísland og Noreg. Svo virðist sem um nokkuð afmarkaða stofna sé að ræða því rannsóknir á erfðaefni benda til þess að lítill samgangur sé milli einstaklinga innan þessara hópa á fæðusvæðum. Þótt einhver erfðablöndun í karllegg sé talin vera milli stofnanna á tímgunarsvæðum er almennt litið á fæðusvæðin sex sem aðskilda stofna eða undirstofna (Reilly et al. 2008, Smith et al 1999, Larsen o.fl. 1996, IWC 2002). Samkvæmt því halda íslenskir hnúfubakar tryggð við sína heimahaga og dvelja á íslensku hafsvæði við fæðunám að sumri en fara milli Íslands og beggja ofangreindra tímgunarsvæða yfir fengitímann. Þetta styðja jafnframt ljósmyndir sem safnað hefur verið til að bera kennsl á einstök dýr (sjá t.d. Smith et al. 1999). Þó hafa hlustunardufl numið hnúfubakssöng að vetrarlagi á hafsvæðinu austur og norður af Íslandi en slíkur söngur er bundinn við tarfa á fengitíma (Edda E. Magnúsdóttir o.fl. 2014).

Hnúfubakur var veiddur í talsverðum mæli áður en aðrir reyðarhvalir urðu veiðanlegir á seinni hluta 19. aldar. Mikil ofveiði leiddi til þess að stofnar hnúfubaka um allan heim voru hætt komnir á 20. öld. Við Ísland var hnúfubakur sjaldgæfur þegar hvalveiðibann tók gildi hér árið 1915. Hann virðist hafa verið sjaldgæfur langt fram eftir 20. öld en fór að fjölga upp úr 1970. Frá því að talningar hófust 1987 hefur hnúfubak fjölgað mikið kringum Ísland. Þar voru innan við 2.000 dýr árið 1987 en hafa verið 10-18 þúsund frá aldamótum og er það líklega meiri fjöldi en var fyrir tíma hvalveiða (Gísli A. Víkingsson o.fl. 2015, Paxton o.fl. 2009, Pike o.fl. 2018).

Lífshættir

Hnúfubakar geta orðið 50 ára gamlir í það minnsta. Kynþroskaaldur er breytilegur eftir svæðum og tíma, allt frá fjögurra til átta ára aldurs. Fengitími og burður í Norður-Atlantshafi er í desember til apríl. Meðgöngutími er 11-12 mánuðir og eru kálfar á spena í um 6 mánuði. Algengast er að kýr beri annað hvert ár.

Fæða hnúfubaks er fjölbreytt og mismunandi eftir svæðum og árstíma. Hér við land nærist hann meðal annars á loðnu og ljósátu og notast við gleypiaðferð við fæðunám; opnar skoltinn og syndir inn í þéttan hóp af bráð svo munnholið fyllist en lokar svo skoltinum og þrýstir sjónum út milli skíðanna þannig að fæðan verður eftir. Hnúfubakar eru oft stakir eða tveir til þrír saman en mynda stundum stærri hópa umhverfis fæðubletti þar sem þeir vinna skipulega saman að smölun bráðar.

Lýsing

Hnúfubakurinn er kubbslega vaxinn, sverastur um miðjuna en mjókkar nokkuð jafnt til beggja enda. Hann getur náð allt að 17 m lengd og eru kýr heldur stærri en tarfar. Hnúfubakurinn er með stóran haus sem nemur allt að þriðjungi af heildarlengd dýrsins. Á höfði og neðri kjálka eru raðir af hringlaga hnúðum sem eru einkennandi fyrir tegundina. Skíðin eru svört og ná þau mest um 70 sm lengd. Frá neðri kjálka aftur að nafla er röð kviðfellinga (rengi), en fellingar þessar eru mun færri og breiðari en á öðrum reyðarhvölum. Eitt helsta einkenni hnúfubaksins eru gríðarstór bægsli en lengd þeirra nemur um þriðjungi af heildarlengd dýrsins. Horn hnúfubaksins er staðsett um það bil 2/3 af lengd dýrsins frá trjónu og er mjög breytilegt að stærð og lögun. Húfubakur er svartur eða dökkgrár á baki en liturinn er breytilegur á kvið, allt frá því að vera alsvartur yfir í alhvítan. Hnúfubakurinn lyftir oft sporðinum í lóðrétta stöðu þegar hann stingur sér í djúpkaf. Blástur hnúfubaksins er breiðari og lægri en blástur annarra reyðarhvala.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 22 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Hnúfubak hefur fjölgað mikið við Ísland á undanförnum áratugum. Í fyrstu skipulegu hvalatalningum við landið (1987) var fjöldinn metinn innan við 2.000 dýr en hefur verið metinn á bilinu 10-18 þúsund frá aldamótum (Pike o.fl. 2009, 2018). Ljóst er að stofninn er í dag mun stærri en hann var fyrir 3 kynslóðum (66 árum). Það, ásamt fjölgun undanfarinna áratuga, setur hnúfubak í flokkinn ekki í hættu (LC).

Global position

Hnúfubakur er ekki talinn í hættu (LC) á bæði Evrópu- og Heimsválista IUCN sem og á válistum Noregs og Grænlands. Eins og aðrar hvalategundir sem heyra undir Alþjóðahvalveiðiráðið er hnúfubakur þó skráður í viðauka I á lista CITES meðan bann ráðsins um hvalveiðar í atvinnuskyni er í gildi. Hnúfubakur hefur verið friðaður í Norður Atlantshafi frá 1956.

Ógnir

Hvalveiðar gengu nærri hnúfubaksstofnum heimsins fyrr á öldum, þar á meðal hér við land. Veiðar eru mjög takmarkaðar í dag og ógna ekki stofnunum enda hefur tegundinni fjölgað mjög um allan heim á síðustu áratugum. Búsvæði hnúfubaks er að miklu leyti bundið við landgrunnssvæði og er nokkuð um að hnúfubakar flækist í veiðarfæri og lendi í árekstrum við skip meðal annars í tengslum við hvalaskoðun. Aðrar helstu ógnir sem steðja að hnúfubökum í Norður Atlantshafi eru þættir sem almennt ógna lífríkinu eins og efnamengun, hljóðmengun, súrnun sjávar og hnattræn hlýnun. Áhrif þessara þátta til lengri eða skemmri tíma eru þó illa þekkt.

Myndir

Heimildir

Edda E. Magnúsdóttir EE, Rasmussen MH, Lammers MO, Svavarsson J (2014) Humpback whale songs during winter in subarctic waters. Polar Biol 37:427–433.

Gísli A. Víkingsson (2004). Hnúfubakur. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 224-229.

Gísli A. Víkingsson, Pike D, Schleimer A, Héðinn Valdimarsson , Þorvaldur Gunnlaugsson, Silva T, Bjarki Elvarsson, Mikkelsen B, Öien N, Desportes G, Valur Bogason, Hammond PS (2015) Distribution, abundance and feeding ecology of baleen whales in Icelandic waters: have recent environmental changes had an effect ? Front Ecol Evol 3:1–18.

International Whaling Commission (IWC). 2002. Report of the Scientific Committee. J. Cetacean res. Manage. 4 (suppl.). https://archive.iwc.int/pages/...

Paxton CGM, Burt ML, Hedley SL, Víkingsson GA, Gunnlaugsson T, Desportes G (2009) Density surface fitting to estimate the abundance of humpback whales based on the NASS-95 and NASS-2001 aerial and shipboard surveys. NAMMCO Sci Publ 7:143–159

Pike DG, Gunnlaugsson Þ, Mikkelsen B, Víkingsson GA (2018) Estimates of the abundance of humpback whales (Megaptera novaeangliae) from the NASS Icelandic and Faroese ship surveys conducted in 2015. IWC SC/67b/ASI/09

Pike, D.G., Paxton, C.G.M., Gunnlaugsson, Th. and Víkingsson, G.A. (2009). Trends in the distribution and abundance of cetaceans from aerial surveys in Icelandic coastal waters, 1986-2001. NAMMCO Sci. Publ. 7:117-142.

Reilly, S.B., Bannister, J.L., Best, P.B., Brown, M., Brownell Jr., R.L., Butterworth, D.S., Clapham, P.J., Cooke, J., Donovan, G.P., Urbán, J. & Zerbini, A.N. 2008. Megaptera novaeangliae. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T13006A3405371. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T13006A3405371.en. Downloaded on 31 August 2018.

Smith, T. D., Allen, J., Clapham, P. J., Hammond, P. S., Katona, S., Larsen, F., ØIen, N. 1999. An ocean‐basin‐wide mark‐recapture study of the North Atlantic humpback whale (Megaptera novaeangliae). Marine Mammal Science 15: 1-32.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Hnúfubakur (Megaptera novaeangliae)

Samantekt á Ensku

The population size of Megaptera novaeangliae in Icelandic and adjacent waters is estimated in the range 10,000–18,000 individuals but was estimated 2.000 in 1987. There has been a significant increase in the population in recent decades and therefore the species is listed as least concern (LC) according to IUCN criteria.