Engjasnigill (Deroceras agreste)

Engjasnigill - Deroceras agreste
Mynd: Erling Ólafsson
Engjasnigill (Deroceras agreste). 25 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Heldur norðræn tegund. Norðanverð Evrópa og Asía og í fjalllendi sunnar í álfunum.

Ísland: Láglendi í öllum landshlutum, en annars er útbreiðslan illa kortlögð á Íslandi en allt bendir til að hann sé á láglendi um land allt.

Lífshættir

Engjasnigill er rakasækinn eins og allir aðrir hans líkar. Hann má finna víðast hvar þar sem hann kemst í nægan raka, t.d. í mýrlendi og miklu gróðurþykkni sem heldur rakanum vel, eins og grasflóki í fuglabyggðum. Á engjum og í frjósömu raklendu beitilandi. Hann leynist gjarnan undir steinum og öðru lauslegu þegar þurrt er í veðri en skríður fram þegar blotnar um eftir úrkomu. Engjasnigill lifir á plöntum og plöntuleifum.

Almennt

Sniglar af ættkvíslinni Deroceras eru torgreindir til tegunda. Hér á landi hafa þrjár tegundir verið skráðar og eru tvær þeirra, engjasnigill og mýrasnigill (Deroceras laeve), einkar líkar í útliti og er torvelt að lýsa hverju þar munar. Betra er betra að hafa sniglana lifandi til skoðunar. Báðir eru fölbleikir eða drappleitir á lit með dekkra höfuð og háls. Á engjasnigli er sólinn ljosari en bolurinn en nær samlitur bolnum á mýrasnigli.

Ekki skal útilokað að tegundirnar séu fleiri hérlendis. Í nágrannalöndunum eru fleiri nauðalíkar tegundir og gætu þær auðveldlega borist til landsins með jarðvegi og gróðurvörum. Í raun er það aðeins á færi sérfræðinga að aðgreina þessar tegundir með vissu, en sú sérfræðiþekking vegur létt hér á landi. Því skal fyrirvari hafður á því sem hér er skráð um þessa snigla.

Það gerir engjasnigil ekki hvað síst áhugaverðan hér á landi að hann var fyrri tegundin af tveim sniglum til að finnast á Surtsey. Þar varð hans fyrst vart 1998 og hefur fundist reglulega síðan með trygga búsetu í gróskumiklu máfavarpi. Sennilegast er að hann hafi borist til eyjarinnar með fuglum, e.t.v. með því að skríða inn í fjaðrahami fugla sem hafa náttað sig í blautum gróðri fuglabyggða í nágrannaeyjum, eða viðloðandi hreiðurefni sem fuglar hafa borið með sér til eyjarinnar.

Engjasnigill - Deroceras agreste
Engjasnigill (Deroceras agreste) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna of Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Fauna Europaea. Deroceras agreste. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=421544.

Lindroth, C.H., H. Andersson, H. Böðvarsson & S.H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The development of a new fauna 1963-1970. Terrestrial invertebrates. Ent. Scand. Suppl. 5: 1–280.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Wikipedia. Deroceras agreste. https://en.wikipedia.org/wiki/Deroceras_agreste.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |