Beltasnigill (Arion fasciatus)

Beltasnigill - Arion fasciatus
Mynd: Erling Ólafsson
Beltanigill (Arion fasciatus). 40 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðanverð Evrópa og fjalllendi sunnar í álfunni. Hefur borist vestur um haf til Kanada og norðurríkja Bandaríkjanna.

Ísland: Útbreiðslan er að mestu óskráð og á þar nokkurn þátt ruglingur við aðrar nauðalíkar tegundir.

Lífshættir

Lífshættir beltasnigils hér á landi eru óþekktir. Á Bretlandseyjum nýtur hann sín hvað best í röskuðu landi, órækt og görðum. Á það sennilega einnig við hér á landi. Eins og aðrir sniglar af þessu tagi nærist beltasnsigill á lifandi og rotnandi plöntum. Hann er þó talinn lítill skaðvaldur.

Almennt

Beltasnigill er af afar erfiðum hópi áþekkra tegunda og hefur flokkunarfræði þeirra verið mjög á reiki og er svo enn. Ekki hjálpar breytileikinn sem merkja má innan tegundanna sem gerir það enn óljósara hvar draga skal mörkin. Tegundir eru ýmist taldar góðar og gildar eða undirtegundir annarra. Ekki léttir undir að stundum eru sniglarnir eingetnir og stundum af tveim foreldrum komnir. Beltasnigill, rákasnigill (Arion circumscriptus) og fleiri misvel skilgreindar tegundir með hliðarröndum í nágrannalöndunum, sem gætu einnig lifað hér á landi, eru í þessum ruglingi. Þessi fræði kunna að taka kollsteypur af og til.

Hér er helst að beltasnigli og rákasnigli (Arion circumscriptus) verði ruglað saman og til að einfalda málið skal gert ráð fyrir að aðrar ófundnar tegundir séu ekki inni í myndinni. Hafa skal í huga að ungir sniglar í uppvexti eru afar óráðnir í útliti og er útilokað að reyna að koma á þá heitum. Þar kemur putasnigill (Arion intermedius) einnig til álita, en fullþroska er hann mun smávaxnari en þeir fyrrgreindu. Beltasnigill er að öllu jöfnu dekkri á lit en rákasnigill, grábrúnn með öllu breiðari hliðarrönd en rákasnigill. Röndin nær eftir allri hliðinni, rofnar við kápuna og heldur áfram fram eftir henni í sveig ofan við öndunaropið. Beltasnigill og rákasnigill eru áþekkir að stærð, fullþroska beltasnigill kann að vera örlítið lengri að jafnaði eða allt að 45 mm á skriði, einnig grófgerðari.

Beltasnigill (Arion fasciatus) - fundarstaðir  samkvæmt  eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Beltasnigill (Arion fasciatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Lindroth, C.H., H. Andersson, H. Böðvarsson & S.H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The development of a new fauna 1963-1970. Terrestrial invertebrates. Ent. Scand. Suppl. 5: 1–280.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Rowson, B., J. Turner, R Anderson & B. Symondson 2014.Slugs of Britain and Ireland. FSC Publications, Telford. 136 bls.

USDA. Terrestrial Mollusc Tool. Arion fasciatus group: Arion fasciatus. http://idtools.org/id/mollusc/factsheet.php?name=Arion%20fasciatus%20gro....

Wikipedia. Arion fasciatus. https://en.wikipedia.org/wiki/Arion_fasciatus.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |