Skuggasnigill (Arion subfuscus)

Skuggasnigill - Arion subfuscatus
Mynd: Erling Ólafsson
Skuggasnigill, 50 mm. ©EÓ
Skuggasnigill - Arion subfuscatus
Mynd: Erling Ólafsson
Skuggasnigill, 50 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Mestöll Evrópa nema e.t.v. allra syðst, N-Spánn, N-Ítalía, austur til Úkraínu og Rússlands til Kákasus. Hefur einnig borist til annarra heimshluta.

Ísland: Láglendi um land allt og á miðhálendinu við Hvítárvatn.

Lífshættir

Eins og flestra snigla er háttur heldur skuggasnigill sig á rökum stöðum. Að degi til dylst hann á skuggsælum stöðum, í laufi og gróðurleifum, undir spýtum og öðru lauslegu. Hann skríður fram á kvöldin og nóttinni til að athafna sig og er mest áberandi þegar blautt er á jörðu. Hann nærist einna helst á þörunga- og sveppaskán sem vex m.a. á spýtum og lurkum en leggst einnig á stærri sveppi og ýmsar plöntur og getur skaðað mat- og skrautjurtir í görðum okkar. Einnig leggst hann á hræ og dauða snigla.

Almennt

Skuggasnigill er algengur í húsagörðum, einkum sunnanlands. Á votviðrasömum kvöldum upp úr miðju sumri má oft sjá umtalsverðan fjölda skuggasnigla skríðandi í blómabeðum og yfir blautar stéttar og plön. Skuggasnigill á sér nokkra náskylda ættingja sömu ættkvíslar (Arion) og eru tegundirnar ekki auðgreindar hver frá annarri.

Skuggasnigill getur orðið nokkuð stór, eða allt að 6–7 cm langur þegar hann teygir úr sér, þó ekki komist hann í hálfkvisti við stóru frændurna svartsnigil (Arion ater) og spánarsnigil (Arion lusitanicus). Skuggasniglar eru allbreytilegir á lit og auk þess getur sami einstaklingur breytt um lit hægt og bítandi. Þeir geta verið dökkgulbrúnir, kanilbrúnir eða dökkgrábrúnir, stundum með appelsínugulum blæ. Sniglarnir eru jafnan dekkri á baki en á hliðum. Margir líta skuggasnigil óttablöndnum augum og telja hann ungviði spánarsnigils. Reyndar er ekki sjálfgefið að létt sé að greina á milli skuggasnigils með rauðgulum litblæ og ungs spánarsnigils.

Skuggasnigill (Arion subfuscus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skuggasnigill (Arion subfuscus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Quick, H.E. 1960. British slugs (Pulmonata; Testacellidae, Arionidae, Limacidae). Bulletin of The British Museum (Natural History), Zoology 6: 1–226.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |