Eggbobbi (Cochlicopa lubrica)

Eggbobbi - Cochlicopa lubrica
Mynd: Erling Ólafsson
Eggbobbi, gamalt dýr. 5,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, NV-Afríka, V- og N-Asía, N-Ameríka.

Ísland: Láglendi um land allt.

Lífshættir

Eggbobbi finnst í rökum sverði, rotnandi plöntuleifum, undir rotnandi lurkum o.s.frv. Hann lifir á plöntuleifum, roti og sveppþráðum. Getur einnig lagst á ferskar plöntur. Hann liggur yfirleitt dulinn í röku umhverfi sínu en kann að koma fram á rökum nóttum, jafnvel að skríða upp veggi og daga þar uppi í dagrenningu.

Almennt

Eggbobbi finnst víða þó lítið beri á honum. Hann er þó sú tegund smásnigils með kuðung sem menn rekast helst á þegar rótað er í rotnandi laufi á jörðu eða lurkum snúið. Hann er auðþekktur frá öðrum bobbum hér á landi að gljábobba (C. lubricella) undanskildum. Sú tegund er mun fágætari, meira gljáandi og ekki eins rakasækin. Vindingarnir fimm mynda háa strýtu og er brúnleitur, hálfgegnsær kuðungurinn um tvöfalt lengri en breiður. Snigillinn sjálfur er nær svartur. Bobbar af þessu tagi eru gjarnan gljáandi sléttir og hálir og er það þeirra vörn gegn afræningjum. Það er erfitt að ná á þeim taki. Þeir meira að segja sleikja kuðunginn með skraptungu sinni til að viðhalda þessum eiginleika. Þegar bobbarnir eldast verður skelin þykkari, ljósari og mun mattari.

Eggbobbi (Cochlicopa lubrica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Eggbobbi (Cochlicopa lubrica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Árni Einarsson 1977. Íslenskir landkuðungar. Náttúrufræðingurinn 47: 65–128.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Nordsieck, R. 2011. The Living World of Molluscs. Pillar Snails (Cochlicopidae). http://www.molluscs.at/gastropoda/terrestrial/cochlicopidae.html [skoðað 18.1.2012]

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |