Brekkubobbi (Cepaea hortensis)

Brekkubobbi - Cepaea hortensis
Mynd: Erling Ólafsson
Brekkubobbi, 19 mm. ©EÓ
Brekkubobbi - Cepaea hortensis
Mynd: Erling Ólafsson
Brekkubobbi, 18 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Vestur- og Mið-Evrópa, Alpafjöll, Bretland, sunnanverð Skandinavía, Eystrasaltslönd.

Ísland: Finnst á fáeinum stöðum syðst á landinu, frá Drangshlíð undir Eyjafjöllum og austur að Höfðabrekku í Mýrdal. Hefur einnig fundist á Heimaey. Einnig hefur brekkubobba verið getið frá Norðfirði, Hornafirði og Núpshlíð á SV-landi, en ólíklegt er að hann finnist þar lengur ef hann hefur þá nokkurn tímann átt þar fastan samastað.

Lífshættir

Brekkubobbi heldur til í gróðurþykkni og á aðliggjandi blautum klettum. Hvannstóð austur undir Reynisfjalli eru dæmigert kjörlendi tegundarinnar. Brekkubobbi nærist á plöntum.

Almennt

Brekkubobbi hefur sennilega verið í landinu frá fornu fari því Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson urðu hans varir á ferðum sínum um landið á 18. öldinni. E.t.v. hefur hann borist til landsins með landnámsmönnum. Þó tegundin sé fágæt finnst töluvert af brekkubobbum þar sem hann lifir í ríkulegum gróðri uppi undir klettum t.d. við bæinn Drangshlíð undir Eyjafjöllum og í hvannstóðum við rætur Reynisfjalls í Vík í Mýrdal. Lagt hefur verið til að búsvæði hans þar verði verndað. Kuðungur brekkubobbans er breytilegur, stundum einlitur gulur en oftast með misbreiðum rauðbrúnum spíralbeltum á gulum vindingunum.

Brekkubobbi (Cepaea hortensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Brekkubobbi (Cepaea hortensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Árni Einarsson 1977. Íslenskir landkuðungar. Náttúrufræðingurinn 47: 65–128.

Eggert Olafsen & Biarne Povelsen 1772. Rejse igiennem Island foranstaltet af Viden-skabernes Sælskab i Kjøbenhavn. Sorøe. 1042 bls.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

María Harðardóttir, Erling Ólafsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Sigmundur Einarsson, Sigurður H. Magnússon, Stari Heiðmarson og Jón Gunnar Ottósson 2008. Verndun svæða, vistgerða og tegunda. Tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna náttúruverndaráætlunar 2009-2013. NÍ-08008. 85 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |