Skógarbobbi (Cepaea nemoralis)

Baugabobbi - Cepaea nemoralis
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarbobbi. Breidd kuðungs 25 mm. ©EÓ
Skógarbobbi - Cepaea nemoralis
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarbobbi. Breidd kuðungs 25 mm. ©EÓ
Baugabobbi - Cepaea nemoralis
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarbobbi. Breidd kuðungs 25 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

V- og M-Evrópa, með ströndum Skandinavíu og Eystrasalts til Litháens og Lettlands; Þýskaland, Tékkland, Ungverjaland, á Balkanskaga til Bosníu. Hefur borist með mönnum til nýrra heimkynna, m.a. í N-Ameríku.

Ísland: Fjórir fundarstaðir; Heiðmörk, Kópavogur, Garðabær, Keflavík og Patreksfjörður.

Lífshættir

Kjörlendi skógarbobba í heimahögum er í skógum og gróðurþykkni, í limgerðum, görðum, brekkum og á grassteppum, nær hátt til fjalla í Ölpunum og Pýreneafjöllum. Hann nærist á plöntum en virðist ekki valda skaða sem telur.

Almennt

Skógarbobbi er fágætur slæðingur til landsins með varningi. Alls er kunnugt um sex tilvik. Hann fannst fyrst í október 1991 og hafði borist ásamt fleiri kvikindum með stálvörum frá Ítalíu til framkvæmda í Heiðmörk. Í maí 2005 fannst einn sem hafði komið sér fyrir utan á hurð innflutningsfyrirtækis í Kópavogi. Þriðja tilvikið er frá Patreksfirði en þá var um að ræða tvo snigla sem bárust þangað með lausum frystieiningum frá Danmörku. Skógarbobbi í garði í Grafarvogi í Reykjavík í júní 2008 er fjórða skráða tilvikið og enn annar fannst á lager hjá BYKO í Keflavík í júlí sama ár. Síðast skal telja bobba sem fannst í garði í Garðabæ vorið 2012. Ekki eru líkur til þess að tegundin setjist hér að í bráð. Skógarbobbi hefur einnig slæðst til Færeyja (maí 2009). Kuðungur skógarbobba er afar breytilegur á lit, stundum einlitur en oftast með spíralbeltum sem er mismunandi fyrir komið. Hann þekkist á því að jaðar munnans er brúnn.

Skógarbobbi (Cepaea nemoralis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skógarbobbi (Cepaea nemoralis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jensen, J.-K. 2009. Insekter og andre dyr: Cepaea nemoralis. www.jenskjeld.info/DK_side/indexdk.htm [skoðað 7.8.2009].

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |