Garðabobbi (Cornu aspersum)

Garðabobbi - Cornu aspersum
Mynd: Erling Ólafsson
Garðabobbi, 30 mm. ©EÓ
Garðabobbi - Cornu aspersum
Mynd: Erling Ólafsson
Garðabobbi, 30 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Suður- og Mið-Evrópa, norður til Bretlandseyja og Suður-Svíþjóðar, Norðvestur-Afríka, til Litlu-Asíu; Norður- og Suður-Ameríka, Suður-Afríka, Ástralía, Nýja-Sjáland og víðar.

Ísland: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri.

Lífshættir

Garðabobbi finnst við margskonar aðstæður, í skógum og gróðurþykkni, á ökrum, vínekrum og klettum, sandhólum við sjávarsíðu, í skrúðgörðum og húsagörðum þar sem hann kann að valda skaða á gróðri. Matarval hans er fjölbreytt, ávaxtatré, garðplöntur, matjurtir og korn. Sjálfur er hann mikilvæg bráð fyrir dýr af ýmsu tagi.

Almennt

Náttúruleg heimkynni garðabobba eru í Miðjarðarhafslöndum, í Norðvestur-Afríku og Suður-Evrópu. Þaðan hefur hann borist með mönnum norðar í álfuna og til annarra heimsálfa. 

Tegundin hefur fundist níu sinnum hér á landi, fyrst í Hafnarfirði í júlí 1992 og hafði sá líkast til borist með granítsteinum frá Portúgal. Næsti fannst einnig í Hafnarfirði, í matvöruverslun í maí 1995. Næstu fjórir fundust í Reykjavík, í september 2002 á athafnasvæði flutningafyrirtækis við Skútuvog, í júní 2004 í lest skips sem hafði komið frá Norðurlöndum, í júlí 2005 í blómaverslun Blómavals og í september 2006 í Grasagarðinum í Laugardal og hafði sá borist með hollenskum plöntum sem garðurinn fékk frá Blómavali. Sá sjöundi fannst á byggingasvæði á Akureyri í september 2008 en á staðnum var aðflutt byggingarefni. Þá fannst garðabobbi utan á gámi í Sundahöfn í nóvember 2011. Allir hafa þessir bobbar borist hingað með varningi á tímabilinu frá maí til nóvember. Síðast fannst garðabobbi í garði í Kópavogi í apríl 2019. Hann var í gróðurúrgangi í blómabeði og hafði lokað fyrir munnan á kuðungnum. Ekki er útilokað að hann hafi lifað þarna af vetur. Þar sem garðabobbi berst hingað nokkuð auðveldlega með varningi er ekki ólíklegt að hann nái fótfestu í görðum á höfuðborgarsvæðinu með honum hagstæðara veðurfari og mildari vetrum.

Garðabobbi (kuðungur 23-33 mm) er með stærstu sniglum sem hér sjást. Kuðungurinn er belgmikill og frekar kúlulaga með kalkríkri, sterkri skel. Hann er gulbrúnn á lit, að grunni til með fimm brúnum spíralröndum sem renna saman að miklu leyti og brotna upp þannig að skelin verður meira eða minna óreglulega flikrótt. Snigillinn sjálfur er ljósleitur, grábrúnn, og þykir afbragðsgóður til átu eins og fleiri stórir sniglar.

(Cornu aspersum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
(Cornu aspersum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Cornu aspersum. (https://www.gbif.org/species/5858758)

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Wikipedia. Helix aspersa. (http://en.wikipedia.org/wiki/Helix_aspersa)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |