Vínekrubobbi (Eobania vermiculata)

Vínekrubobbi - Eobania vermiculata
Mynd: Erling Ólafsson
Vínekrubobbi, 18 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Allt umhverfis Miðjarðarhaf og á eyjum þar í hafi, Litla-Asía, Krímskagi.

Ísland: Þrír fundarstaðir, Hafnarfjörður, Selfoss og Aðaldalur.

Lífshættir

Í heimahögum fannst vínekrubobbi upphaflega á grassteppum en finnst nú einna helst á ekrum, í görðum og vegköntum, í gróðurþykkni allskonar og á vínekrum.

Almennt

Vínekrubobbi er fágætur slæðingur á Íslandi sem fannst í tvígang með stuttu millibili haustið 2009, þ.e. á Núpum í Aðaldal 1. október og við Selfoss átta dögum síðar eða 9. október. Báðir bobbarnir fundust í vínberjaklösum. Því má líklegt telja að þeir hafi borist til landsins með sömu sendingunni frá S-Evrópu. Þriðji bobbinn fannst síðan í Hafnarfirði 27. september 2013 og fylgdi hann einnig vínberjum til landsins.

Vínekrubobbi er sannarlega augnakonfekt, einn af allnokkrum röndóttum bobbum af lyngbobbaættinni (Helicidae). Kuðungurinn er tiltölulega flatur, þ.e. með lága strýtu. Skelröndin umhverfis munnann er þunn á báðum bobbunum sem hingað bárust 2009 en það merkir að um ungviði sé að ræða. Á fullmótuðum kuðungum er röndin þykk og útsveigð, hvít á lit. Það á hins vegar við um þann þriðja. Grunnlitur skeljarinnar er kremaður. Spíralrendurnar eru fimm að grunni til en geta runnið saman og verið slitróttar.

Vínekrubobbi (Eobania vermiculata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Vínekrubobbi (Eobania vermiculata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |