Lyngbobbi (Arianta arbustorum)

Útbreiðsla

Norðvestur- og Mið-Evrópa, austur til Úkraínu og Rúmeníu; Færeyjar.

Ísland: Austurland frá Gunnólfsvíkurfjalli við Bakkaflóa og suður til Kvískerja í Öræfum. Einnig gamlir fundir frá Vestfjörðum. Í seinni tíð víða á Suðvesturlandi, Akureyri, Hólmavík.

Lífshættir

Á Austurlandi er lyngbobbi einna algengastur í skóglendi, birkiskógum og lerkiskógum, en finnst einnig í gróðurríku mólendi. Á Snæfellsnesi fannst hann í gróðurbrekkum með grösum, og blómplöntum. Á höfuðborgarsvæðinu er hann einkum í gróðurríku óræktarlandi og gróskumiklum húsdagörðum. Lyngbobbi nærist á plöntum og veldur á þeim skemmdum.

Almennt

Lyngbobbi hefur löngum verið kenndur við Austurland. Þrír gamlir fundarstaðir á Vestfjörðum,  Reykjafirði í Arnarfirði, Höfða við Dýrafjörð og Ísafirði, stinga í stúf og hefur verið efast um trúverðugleika þeirra. Í seinni tíð hefur lyngbobbi tekið að finnast á vestanverðu landinu. Í Breiðuvík á Snæfellsnesi fundust tveir sniglar árið 1991. Landnám á höfuðborgarsvæðinu er nýlegra. Fyrst segir af snigli í Örfirisey árið 1995 sem grunur lék á að hefði borist með timburfarmi frá Eistlandi. Næst fundust sniglar í húsagarði í Reykjavík 1998 og í óræktarlimgerði við íþróttasvæði í Hafnarfirði 2001. Síðan hefur lyngbobbum fjölgað mikið á Suðvesturlandi, hefur augljóslega dreifst út frá höfuðborginni og sest að víða, frá Reykjanesbæ austur Rangárvelli og til Akraness. Þá fundust lyngbobbar í garði á Akureyri 2010 og í Hólmavík 2016.

Á það hefur verið bent að lyngbobbar á höfuðborgarsvæðinu séu öllu stærri en ættingjar þeirra á Austurlandi og því sé líklegt að þeir séu afkomendur slæðinga erlendis frá. Á svipuðum tíma (2003) barst lyngbobbi til Færeyja og settist þar að.

Kuðungur lyngbobba er breytilegur að stærð, oft í kringum 20 mm. Hann er  rauðbrúnn og greina má dekkra spíralbelti á miðjum vindingunum. Snigillinn er dökkgrár til svartur.

Útbreiðslukort

Heimildir

Árni Einarsson 1977. Íslenskir landkuðungar. Náttúrufræðingurinn 47: 65–128.

Hjörleifur Guttormsson 1972. Lyngbobbinn á Austurlandi Týli 2: 72–74.

Jensen, J.-K. 2005. Sniglar við Húsa. Dimmalætting 2005.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Páll Einarsson 2003. Lyngbobbi finnst í Reykjavík. Náttúrufræðingurinn 71: 134–137.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Ævar Petersen 1992. Nýr fundarstaður lyngbobba Náttúrufræðingurinn 61: 133–135.

Höfundur

Erling Ólafsson 24. ágúst 2010, 1. júlí 2019.

Biota

Tegund (Species)
Lyngbobbi (Arianta arbustorum)