Kjölsnigill (Lehmannia marginata)

Kjölsnigill – Lehmannia marginata
Mynd: Erling Ólafsson
Kjölsnigill (Lehmannia marginata). 60 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, væntanlega upprunninn þar. Stofnar hafa skotið upp kollum í Norður-Ameríku, Ástralíu og Japan.

Ísland: Láglendi í öllum landshlutum.

Lífshættir

Lifir fyrst og fremst í skógum í Evrópu en óljóst er hvert kjörlendið er hér á landi. Nærist á sveppum, fléttum og þörungum en tungan er sérþróuð til að skrapa upp þannig fæðu. Í neyð getur hann étið dauða snigla en aldrei æðplöntur og er hann því ekki skaðvaldur. Í skógum getur kjölsnigill skriðið hátt upp eftir trjám að nóttu til. Leitar skjóls undir trjáberki eða í rotnandi sverði á jörðu.

Almennt

Kjölsnigill er sjaldgæfur hérlendis en hefur þó fundist hér og þar á láglendi. Ekkert er vitað um lífshætti hans hér.

Kjölsnigill (60-80 mm) er meðalstór snigill sem teygist verulega úr þegar hann skríður. Hann er breytilegur á lit, oftast mislitur, stundum ljósleitur í grunninn, stundum dökkleitur. Kápan gjarnan ljósari að ofan en til hliðanna. Stundum eru sniglarnir sprengdir, ljósir og dökkir. Öllu jöfnu er ljós rönd eftir bakinu endilöngu fyrir aftan kápuna. Aftast rís bakið upp í áberandi kjöl sem lyftir upp ljósu bakröndinni.

Kjölsnigill – Lehmannia marginata
Kjölsnigill (Lehmannia marginata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Lehmannia marginata. https://www.gbif.org/species/5781247.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Rowson, B., J. Turner, R Anderson & B. Symondson 2014.Slugs of Britain and Ireland. FSC Publications, Telford. 136 bls.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |