Vatnabobbi (Radix balthica)

Vatnabobbi - Radix bathica
Mynd: Erling Ólafsson
Vatnabobbi (Radix bathica). 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa og vestanverð Asía austur til Afganistans og Írans, N-Afríka; Færeyjar, Asoreyjar.

Ísland: Land allt, jafnt láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Vatnabobbi lifir í ferskvatni. Hann finnst við hinar fjölbreytilegustu aðstæður, í stórum stöðuvötnum, tjörnum, grunnum mýratjörnum sem jafnvel þorna upp í sumarþurrkum, í smápollum, lækjum og skurðum, einnig í laugum á jarðhitasvæðum. Vatnabobbi er harður af sér við erfiðar aðstæður. Getur skriðið niður í leirbotn á þurrkatímum og lifað af þar. Oft má sjá marga snigla skríða eftir leirbotni í grunnum tjörnum. Áberandi skriðför strika botninn þvers og kruss þar sem sniglar hafa skriðið yfir brautir hvers annars. Þeir skófla í sig lífrænum efnum úr leirnum, groti, gerlum og þörungum. Algengt er að sjá haug af dauðum kuðungum sem hafa rekið saman með hreyfingum vatnsins eftir tjarnabotnum.

Almennt

Breytileikinn í heimkynnum tegundarinnar hefur gert í flokkunarfræði vatnabobba óstöðuga og hefur tegundin gengið undir ýmsum fræðiheitum. Áður skilgreindar tegundir hafa verið að sameinast undir fræðiheitinu Radix balthica. Löngum gekk vatnabobbinn undir heitinu Lymnaea peregra og er hans getið í flestum íslenskum heimildum undir því heiti.

Kuðungurinn er gulbrúnn á lit, afar breytilegur að stærð, allt frá 10-20 mm á hæð, þ.e. frá enda strýtunnar og aftur. Hann er nokkurn veginn egglaga og er strýtan mishá. Munninn er mjög víður. Hann er samt töluvert breytilegur í forminu og fer skel kuðungsins mikið eftir efnasamsetningu vatnsins sem snigillinn lifir í. Í kalkríku vatni verður skelin þykk, mött og hrjúf en þynnri í súrara vatni og meira gljáandi.

Vatnabobbinn er líkur ættingja sínum, tjarnabobbanum (Galba truncatula), en sá hefur mun hærri strýtu og minni munna. Vegna breytileika innan tegundanna getur samt reynst torvelt að aðgreina þessar tvær tegundir. Tjarnabobbi hefur fundist á láglendi víða um land en er varla ekki eins algengur og vatnabobbinn. Báðar þessar tegundir, og margar aðrar sömu ættar, eru þekktir millihýslar fyrir ýmis skæð sníkjudýr, eins og t.d. lifrarögðu (Fasciola hepatica). Ungviðið þroskast í sniglunum, fer frá þeim á ákveðnu þroskastigi út í gróðurinn og er þar tekið upp af kindum og nautgripum til að þroskast í þeim til fullorðinsstigs. Úr búsmalanum geta ygðurnar borist í menn.

Vatnabobbi - Radix bathica
Vatnabobbi (Radix bathica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zool. of Icel. Vil. IV, Part 65. 31 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. The Hamlyn Publishing Group Ltd., London. 216 bls.

Wikipedia. Galba trunkatula. https://en.wikipedia.org/wiki/Galba_truncatula.

Wikipedia. Fasciola hepatica. https://en.wikipedia.org/wiki/Fasciola_hepatica.

Wikipedia. Radix peregra. https://en.wikipedia.org/wiki/Radix_peregra.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |