Búrbobbaætt (Physidae)

Almennt

Ættin er útbreidd frá tempraða hitabelti norðurhvels og norður eftir, einnig í Norður- og Suður-Ameríku þar sem fjölbreytileikinn er mestur. Rannsóknir á ættinni eru ekki fullnægjandi og liggur fjöldi tegunda í heiminum ekki fyrir. Í Evrópu eru aðeins fjórar tegundir skráðar auk einnar sem þangað barst með manninum frá Ameríku.

Tegundirnar lifa í díkjum, vötnum, tjörnum og pollum, svo og í hægrennandi straumvatni. Finnast oft í manngerðu umhverfi, í garðtjörnum og fiskaræktun. Þær eru mjög þolnar gagnvart óhreinindum og mengun í vötnum. Sniglarnir nærast einkum á þörungum, kísilþörungum og rotnandi leifum.

Fljótt á litið líkjast kuðungarnir kuðungum vatnabobbaættar, brúnir á lit, með stóran grunnvinding og keilulaga trjónu. Hins vegar er vindingur kuðungsins vinstrisnúinn þegar horft er á hann neðan frá (opið upp). Þeir eru öllu smávaxnari en vatnabobbar. Skelin er þunn, frekar gegnsæ og má greina í henni flikrumynstur. Margar tegundir eru ekki auðgreindar af skelinni einni. Þó þær hafi þróast á ýmsan veg hefur skelin oft setið eftir. Þessir sniglar hafa einstæðan vöðva sem stjórnar því að kuðungurinn vingsar til hliðanna við áreiti. Með því reynir hann að villa um fyrir rándýrum sér til varnar. Sniglarnir anda með lungum og sækja sér loft upp í yfirborðið. Fálmarar eru tveir þráðlaga og er eitt auga staðsett við rót hvors þeirra.

Á Íslandi finnst ein tegund ættarinnar sem slæðst hefur úr fiskabúrum út í náttúruna staðbundið. Tegundin er sú sama og barst frá Aameríku til Evrópu og er ein helsta snigilstegundin í skrautfiskabúrum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |