Mynd: Erling Ólafsson
Hvannabobbi, 5 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Gjörvöll Evrópa nema allra syðst, M- og N-Asía, N-Ameríka; Grænland
Ísland:Láglendi um land allt, einnig fundinn víða á miðhálendinu, m.a. Þjórsárver, Vesturöræfi og Esjufjöll; hefur numið land á Surtsey.
Lífshættir
Hvannabobbi heldur sig á rökum stöðum, undir þéttum gróðri, í blómstóðum, t.d. hvannstóðum, í skógarbotnum á lækjarbökkum og víðast hvar þar sem raki viðhelst. Finnst einnig í görðum og öðru manngerðu umhverfi. Hann þolir illa hita og þurrk. Kulda þolir hann hins vegar vel og getur verið á ferli jafnt að vetri sem sumri. Hann sést einna helst niðri í gróðursverði, oft undir steinum, trjálurkum og öðru lauslegu. Ef til vill lifir hann öðru fremur á plöntuleifum og öðru rotnandi. Það er þó ekki fyllilega vitað.
Almennt
Hvannabobbi er án efa algengastur og útbreiddastur landsnigla hérlendis og finnst allt frá sjávarströndum inn til lands og fjalla í yfir 600 m hæð.
Hvannabobbi er smávaxinn. Kuðungsskelin er nær glær eða gegnsæ, gulgræn til gulbrún, glansandi sem gler, þunn en samt nokkuð sterk. Vindingar eru 3-3½ og strýtan tiltölulega flöt. Snigillinn sjálfur er blágrár til fjólugrár, hornin oft nokkuð dekkri en bolurinn.
Hvannabobbi (Vitrina pellucida) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Árni Einarsson 1977. Íslenskir landkuðungar. Náttúrufræðingurinn 47: 65–128.
Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grönlands fjeld oh ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.
Erling Ólafsson 2000. Landliðdýr í Þjórsárverum. Rannsóknir 1972–1973. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 40. 159 bls.
Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna of Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.
Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.
Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 22. september 2010
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp