Mynd: Hörður Kristinsson
Vatnsliðagras (Alopecurus aequalis)
Útbreiðsla
Vatnsliðagras er algengt um allt land frá láglendi upp í 650 m hæð. Hæstu fundarstaðir vatnsliðagrass eru við Ásbjarnarvötn (777 m) og Bleikálupolla á Hofsafrétti (740 m) og í svipaðri hæð við Laufrandarhraun (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Vex einkum þar sem blautt er, t.d. í leirkenndum botni í grunnum tjörnum, vötnum og vatnsflæðum, lækjum og síkjum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Lýsing
Fremur lágvaxið gras (10–30 sm) með þétt, grágrænt, mjúkt ax.
Blað
Blöðin 2–4 mm á breidd, skarprifjuð á efra borði. Breiðari blöðin með 12–20 rifjum. Slíðurhimnan 2–3 mm á lengd (Hörður Kristinsson 1998). Það myndar oft langa sprota með blöðum sem fljóta ofan á vatnsborðinu. Blöðin eru oftast móleit eða brúnleit á litinn en ekki fagurgræn eins og er á brúsakollum sem oft mynda svipuð blöð á yfirborði grunnra vatna (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Blóm
Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu, keflislaga, ljósgrágrænu, 1,5–2 sm löngu samaxi (axpunti) á stráendanum. Axagnirnar grænar, dökkar í endann, með hvítum, uppréttum hárum langt upp eftir. Ytri blómögnin með baktýtu sem stendur aðeins lítið út úr smáaxinu. Fræflar hanga út úr axinu um blómgunartímann; frjóhirslur gular eða ryðbrúnar (Hörður Kristinsson 1998).
Aldin
Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).
Greining
Vatnsliðagras getur líkst knjáliðagrasi þegar það vex í mikilli bleytu. Knjáliðagras þekkist best frá vatnsliðagrasi á lengri týtum sem standa langt út úr axinu og á uppblásnum slíðrum. Knjáliðagras er miklu lágvaxnara en háliðagras og með dekkra og styttra samax (Hörður Kristinsson 1998).
Útbreiðsla: Vatnsliðagras (Alopecurus aequalis)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp