Mynd: Hörður Kristinsson
Hlaðkolla (Lepidotheca suaveolens)
Útbreiðsla
Hún barst fyrst til landsins um síðustu aldamót, hefur síðan dreifst nokkuð um landið og er nú nokkuð algeng í þéttbýli. Hún vex einkum í hlaðvörpum og athafnasvæðum við hafnir og í vörumiðstöðvum. Hún virðist ferðast mest með vöruflutningabílum og loða fræin við dekk þeirra. Þannig berst hún heim á sveitabæi með áburðar- og fóðurflutningum. Dreifist þá fyrst út frá þeim stað þar sem bílarnir affermast eða snúa við (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Hlaðvarpar, vegir, bílastæði og önnur ómalbikuð athafnasvæði (Hörður Kristinsson 1998).
Lýsing
Fremur lágvaxin planta (5–30 sm) með pípukrýndum blómum í körfum. Blómgast í júlí–september.
Blað
Blöðin tví- til þrífjöðruð, smáblöðin striklaga (Hörður Kristinsson 1998).
Blóm
Blómin standa mörg og þétt saman í kúptum körfum, öll pípukrýnd. Krónan gulgræn. Reifablöðin breið, sporbaugótt, græn í miðju með breiðum, glærum himnufaldi (Hörður Kristinsson 1998).
Greining
Líkist helst baldursbrá, blöðin eru afar lík en blóm hlaðkollunnar eru auðþekkt á því að hvítu jaðarblómin vantar.
Útbreiðsla: Hlaðkolla (Lepidotheca suaveolens)
Höfundur
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp