Almosi (Blindia acuta)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, er þó lítið inni á miðhálendinu (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Búsvæði

Vex á rökum steinum og klettum, oft í og við ár og læki (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Lýsing

Plöntur 1-8 sm á hæð, nokkuð glansandi, brúnleitar, gulbrúnar, ljós- eða dökkgrænar ofan til (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Gróliður

Plöntur 1-8 sm, nokkuð glansandi, brúnleitar, gulbrúnar, ljós- eða dökkgrænar ofan til en brúnleitar eða svartleitar neðan til, vaxa í nokkuð þéttum brúskum. Rætlingar gulbrúnir, aðeins neðst á stöngli og lítt áberandi. Stöngull brúnn. Blöð losna oft auðveldlega frá stöngli og eru oft öll fallin af neðsta hluta hans. Blöð oftast 1,5-3 mm, mjókka frá egglensulaga eða lensulaga grunni fram í heilrendan eða nær heilrendan, allaga framhluta sem er að mestu myndaður af rifinu og er oftast miklu lengri en blaðgrunnur. Blaðendi snubbóttur eða yddur, stundum lítillega tenntur (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Kynliður

Alloft með gróhirslum. Plönturnar eru einkynja, karlknappur áberandi, rauðgulur neðan til. Kvenhlífarblöð mjókka snögglega frá slíðurlaga, nokkuð breiðum grunni fram í allaga, stuttan framhluta. Stilkur 2-6 mm, beinn eða dálítið bugðóttur ofan til, gulur, verður rauðgulur eða rauðbrúnn með aldrinum. Gróhirsla egglaga eða breiðperulaga, verður bikarlaga þegar lokið er fallið af. Þurrar og tómar gróhirslur samandregnar fyrir neðan gróhirsluopið, með víðu gróhirsluopi og stundum trektlaga. Gróhirslur sléttar, eru lengi grænar en verða brúnar með aldrinum og rauðbrúnar við opið. Lok gulbrúnt eða rauðbrúnt, með skástæðri trjónu. Kranstennur 16, lensulaga, yddar, heilar eða götóttar, stöku sinnum örlítið klofnar í endann, rauðgular, rauðbrúnar eða dökkrauðar, sléttar (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Frumur

Allar frumur í blaði með þykkum veggjum, ekki holóttum. Horn vel afmörkuð og mjög áberandi í blöðum, ná næstum inn að rifi. Hornfrumur tútnar, rauðbrúnar, með þykkum veggjum, ferningslaga þegar ofar kemur í blaðið (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Útbreiðsla - Almosi (Blindia acuta)
Útbreiðsla: Almosi (Blindia acuta)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |