Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)

Mynd af Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)
Mynd: Hörður Kristinsson
Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)
Mynd af Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)
Mynd: Hörður Kristinsson
Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)

Útbreiðsla

Vex dreift um landið (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Búsvæði

Vex einkum á jarðvegi utan í klettum, í jarðvegsfylltum eða sandfylltum klettaskorum, utan í hraunveggjum, í hraungjótum, skriðum og uruðum, börðum, á melum og torfveggjum (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Lýsing

Blöð breiðlensulaga, tungulaga eða spaðalaga, stuttydd eða snubbótt og broddydd. Efri blöð með löngum hároddi en þau efri oft án hans (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Gróliður

Plöntur 0,5-2,5 sm, brúnleitar neðan til en grænar eða gulgrænar ofan til, stundum dálítið blágrænar efst. Rætlingar brúnir, sléttir. Rök blöð upprétt eða útstæð. Blöð breiðlensulaga, tungulaga eða spaðalaga, stuttydd eða snubbótt og broddydd, 1-3,5 mm, sé hároddur ekki meðtalinn. Rif gulleitt, verður brúnt eða rauðbrúnt með aldrinum, nær fram undir blaðenda, fram í blaðenda eða fram úr blöðku og myndar gulleitan eða litlausan hárodd á blöðin. Neðri blöðin eru oft án hárodds en efri blöðin með löngum hároddi. Hároddar eru oftast eitthvað tenntir. Nokkuð skörp litaskil eru oftast í blöðum, framhlutinn grænn en neðri hlutinn litlaus eða brúnleitur (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, nær alltaf með gróhirslum. Stilkur rauður, rauðbrúnn, brúnn eða gulbrúnn, 4-10 mm. Hetta gul, glansandi, brún efst, slétt eða trosnuð að neðan, yfirborð slétt, hrjúft eða lítillega vörtótt efst. Gróhirsla upprétt, sívöl, bein, rákótt. Þurrar og tómar gróhirslur djúpskoróttar. Ungar gróhirslur grænar, annars eru gróhirslur brúnar eða rauðbrúnar. Gróhirsluop rauðleitt. Lok með langri, beinni trjónu. Opkrans einfaldur. Tennur stuttar, lensulaga, vörtóttar, rauðar, rauðbrúnar, brúnar eða gulbrúnar, stundum gular. Tennur eru stundum með forkransstubbum (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs sexhyrndar eða ferningslaga, þéttvörtóttar. Frumur í blaðgrunni með þunnum langveggjum en þykkari, brúnum þverveggjum. Frumur við blaðrönd í blaðgrunni gulleitar, striklaga, með nokkuð þykkum veggjum og mynda greinilegan jaðar á blöðin (Bergþór Jóhannsson 1992c).

Útbreiðsla - Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)
Útbreiðsla: Álfaklukka (Encalypta rhaptocarpa)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |