Bólmosi (Funaria hygrometrica)

Útbreiðsla

Fundinn í öllum landshlutum en er algengastur á Suðvesturlandi og á Norðurlandi (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Búsvæði

Vex á berum jarðvegi í skurðbökkum, rökum móbergsklettum, við hveri og laugar, utan í hlöðnum og steyptum veggjum, við gangstéttir, í götuslóðum, trjábeðum, gróðurhúsum og blómapottum (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Lýsing

Stöngull stuttur, neðri blöð smá en efri stór, ljósgræn. Gróhirslustilkur langur (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Gróliður

Stöngull stuttur, oft um 5 mm. Neðri blöð smá, egglensulaga. Efri blöð stór, oftast 2-3 mm, ljósgræn, langegglaga eða öfugegglaga, með stuttum oddi, mynda lauklaga knapp á stöngulenda. Blaðrönd flöt eða niðursveigð og blöð oft dálítið kúpt. Blöð svo til heilrend eða örlítið tennt, einkum framan til en stundum einnig neðan til. Rif endast oftast með blöðku. Rætlingar gulbrúnir eða ljósbrúnir (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Kynliður

Gróhirslustilkur langur, oftast 1-5 sm, fyrst gulur en verður brúnn eða rauðbrúnn. Fullvaxinn stilkur er uppréttur en dálítið bugðóttur og boginn efst svo gróhirslan verður álút. Gróhirsla perulaga en óregluleg og með kryppu. Ungar gróhirslur grænar, síðan verða þær gular og að lokum brúnar. Þær eru rákóttar og með djúpum skorum þegar þær eru orðnar gamlar. Oft má finna gróhirslur á öllum þroskaskeiðum á sama stað. Gróhirsluopið skástætt á gróhirslunni og snýr venjulega niður. Á lokuðum gróhirslum er mjög áberandi rauður hringur við opið. Lokið er kúpt en totulaust, gult í miðju en brúnin er rauð og myndar hún hinn rauða hring um opið. Hetta hárlaus, ljósgul, uppblásin neðan til en fremri hlutinn myndar mjóa, sívala trjónu. Opkrans tvöfaldur, vel þroskaður, hvor tannakrans með 16 tönnum. Ytri og innri tennur standast á. Innri tennur eru lausar frá ytri tönnum. Ytri tennur eru undnar rangsælis þegar horft er beint framan á opkransinn. Innri tennur gulleitar og nokkuð styttri en þær ytri (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Frumur

Frumur stórar, með þunnum veggjum, fer- eða sexhyrndar í framhluta blaðs, ferhyrndar í blaðgrunni. Frumur við blaðrönd nokkuð mjórri en frumur innar í blaðinu (Bergþór Jóhannsson 1990b).

Útbreiðsla - Bólmosi (Funaria hygrometrica)
Útbreiðsla: Bólmosi (Funaria hygrometrica)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |