Hagatoppur (Timmia austriaca)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Vistgerðir

Vex oftast á jarðvegi á skuggsælum stöðum, í klettaskorum og á klettasyllum, við klettaveggi, í hraunbollum, sendnum börðum og brekkum, í urðum, gilskorningum, ár- og lækjarbökkum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Plöntur uppréttar eða uppsveigðar (2-14 sm), oftast dökk-, ljós- eða gulgrænar. Blöð nokkurn veginn jafnstór eftir öllum stönglinum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Plöntur uppréttar eða uppsveigðar, 2-14 sm, dökkgrænar, ljósgrænar eða gulgrænar, sjaldan gular eða gulbrúnar efst en brúnar eða rauðbrúnar neðan til, ógreindar eða kvíslgreindar. Rætlingar brúnir, vörtóttir, ná oft nokkuð upp eftir stöngli en eru ekki sérlega þéttir. Blöð nokkurn veginn jafnstór eftir öllum stönglinum. Rök blöð upprétt eða útstæð. Þurr blöð oftast sveigð inn að stöngli eða í eina átt en geta verið útsveigð og eru stundum allt að því hrokkin efst á stöngli. Þurr blöð rennulaga. Blaðrönd flöt eða innsveigð. Blöð hvasstennt fremst og stundum lítillega tennt næstum niður að slíðri. Blaðendi þverstýfður og tenntur. Blöð 4-7,5 mm, með aflöngu, rauðgulu eða rauðbrúnu slíðri og lensulaga, grænum eða gulleitum framhluta (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Plöntur einkynja, afar sjaldan með gróhirslum. Stilkar geta verið tveir frá sama kvenknappi. Stilkur 2-3 sm, rauðgulur eða brúnn. Gróhirsla brún eða rauðbrún, stendur oft hornrétt út frá stilk en getur verið drúpandi, aflöng og sívöl eða langegglaga. Þurrar gróhirslur djúpskoróttar. Lok hvolflaga með smátotu í endann. Varafrumur á hálsi og neðsta hluta gróhirslu (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs óreglulega ferhyrndar, með jafnþykkum veggjum, í nokkuð greinilegum langröðum, gúlpnar á efra borði en sléttar á bakhlið (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex oftast á jarðvegi á skuggsælum stöðum, í klettaskorum og á klettasyllum, við klettaveggi, í hraunbollum, sendnum börðum og brekkum, í urðum, gilskorningum, ár- og lækjarbökkum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Biota

Tegund (Species)
Hagatoppur (Timmia austriaca)