Hlaðmosi (Ceratodon purpureus)

Útbreiðsla

Finnst víða um land (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Vistgerðir

Vex einkum á berum, frekar þurrum eða rökum, sendnum jarðvegi. Vex við hús, götur og vegi, á steyptum veggum, torfveggjum, í steinhleðslum og á húsþökum. Vex einnig á jarðvegsfylltum skorum í klettum, á móbergi, í skurðbökkum og flögum, á trjástofnum, melum og sendnum harðbölum, í móum, lækjarbökkum, urðum, fjörusandi, jarðhita, fuglaþúfum, á beinum og víðar frá fjöru og upp á hæstu fjöll (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Lýsing

Breytileg tegund, lágvaxin, grænar, gulgrænar, rauðar eða rauðbrúnar. Rætlingar gulbrúnir eða gulir, sléttir (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Gróliður

Plöntur 0,5-4 sm háar, stundum greinóttar, grænar, gulgrænar, rauðar eða rauðbrúnar, vaxa oft í þéttum toppum eða breiðum. Rætlingar gulbrúnir eða gulir, sléttir. Neðri blöð oft 0,7-1 mm, aðlæg en efri blöðin oft 1,5-2,5 mm, upprétt eða dálítið útstæð, undin þegar þau eru þurr. Blöð egglaga, egglensulaga eða lensulaga, ydd, oft langydd, stundum broddydd, kjöluð. Blaðrönd útundin, oftast næstum fram í blaðenda, stundum sljótennt fremst í blaði. Rif breitt, nær fram í blaðenda eða fram úr blöðku, stundum nær það þó ekki alveg fram í blaðenda, einkum á neðri blöðunum (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Kynliður

Plöntur einkynja, oft með gróhirslum. Stilkur 0,7-3 sm, uppréttur, dökkrauður en verður oft gulbrúnn, sjaldan svartleitur. Þurrar gróhirslur djúpskoróttar. Ungar gróhirslur dökkrauðar eða rauðbrúnar en gamlar gróhirslur oft gulbrúnar. Greinilegur hnúður á hálsi, einkum á þurrum gróhirslum. Lok keilulaga. Hetta gul, brún í endann, skástæð og klofin á hliðinni. Kranstennur rauðbrúnar eða dökkbrúnar, með gulum jöðrum, verða gulbrúnar með aldrinum, lensulaga, klofna í tvennt næstum niður að sameiginlegri grunnhimnu, vörtóttar. Á þurrum opkransi eru tannaendar sveigðir inn yfir gróhirsluopið en á rökum kransi eru tennur beinar og mynda keilu fram úr gróhirsluopinu (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs ferningslaga eða óreglulega sexhyrndar, sléttar, með nokkuð þykkum veggjum. Neðst í blaði eru frumur ferhyrndar (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex einkum á berum, frekar þurrum eða rökum, sendnum jarðvegi. Vex við hús, götur og vegi, á steyptum veggum, torfveggjum, í steinhleðslum og á húsþökum. Vex einnig á jarðvegsfylltum skorum í klettum, á móbergi, í skurðbökkum og flögum, á trjástofnum, melum og sendnum harðbölum, í móum, lækjarbökkum, urðum, fjörusandi, jarðhita, fuglaþúfum, á beinum og víðar frá fjöru og upp á hæstu fjöll (Bergþór Jóhannsson 1992a).

Biota

Tegund (Species)
Hlaðmosi (Ceratodon purpureus)