Hraungambri (Racomitrium lanuginosum)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Vistgerðir

Vex oft í þykkum, víðáttumiklum breiðum í hraunum. Vex einnig á klettum, í urðum, á þúfum í mýrum, í móum, á melum og í kjarrlendi (Bergþór Jóhannsson 1993).

Lýsing

Þurrar plöntur gráar eða grágrænar efst en rakar plöntur grænar. Bregst mjög hratt við rakabreytingum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Gróliður

Þurrar plöntur gráar eða grágrænar efst, stundum gráhvítar. Rakar plöntur grænar, gulgrænar, gulbrúnar eða svartleitar en þó er grái liturinn oft greinilegur. Neðsti hluti plantna brúnn eða svartur. Stöngull oftast 2-15 sm, með fjölda stuttra hliðargreina. Einstaka sinnum eru plöntur þó lítið greinóttar. Blöð oft dálítið einhliðasveigð á stöngulenda. Blöð bregðast afar hratt við rakabreytingu. Blöð mjólensulaga, langydd, smámjókka næstum frá blaðgrunni. Neðri hluti blaða grænn en framhluti er litlaus, tenntur og vörtóttur og eru blöð því með gráhvítum hároddi. Hároddur er myndaður af blöðkunni og teygist niður með blaðröndunum. Rif breitt og flatt, nær um það bil fram undir litlausa hlutann. Blöð oftast 3-4 mm. Hároddur mjög mislangur, getur verið næstum eins langur og græni hlutinn. Á þeim svæðum landsins þar sem sumarúrkoma er lítil er hároddur oft greinilega lengri og plöntur grárri en á rigningasvæðum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Kynliður

Plöntur einkynja, gróhirslur frekar sjaldséðar en þar sem þær finnast getur verið talsvert af þeim en þær eru lítið áberandi. Stilkur kemur frá enda hliðargreinar. Stilkur uppréttur, gulur eða rauðgulur, 3-6 mm, vörtóttur og mjög hrjúfur. Gamlir stilkar rauðbrúnir. Þurr stilkur undinn til hægri ofan til þegar horft er á hann frá hlið. Gróhirsla egglaga, gulbrún eða brún, slétt. Gamlar gróhirslur dökkbrúnar eða rauðbrúnar. Lok rauðbrúnt, með langri trjónu. Hetta topplaga, regluleg, upprétt, gul eða gulbrún, brún efst. Hettan er klofin að neðan á mörgum stöðum og er sepótt. Kranstennur gulbrúnar, brúnar eða rauðbrúnar, klofnar niður að grunni í tvö þráðlaga skanka, þéttvörtóttar, með háum vörtum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Frumur

Blaðka eitt frumulaga á þykkt. Frumur í grænar hluta blaðsins vörtulausar. Frumur svo til eins í öllu blaðinu, striklaga, með mjög þykkum, hnúðóttum langveggjum en þunnum þverveggjum (Bergþór Jóhannsson 1993).

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex oft í þykkum, víðáttumiklum breiðum í hraunum. Vex einnig á klettum, í urðum, á þúfum í mýrum, í móum, á melum og í kjarrlendi (Bergþór Jóhannsson 1993).

Biota

Tegund (Species)
Hraungambri (Racomitrium lanuginosum)