Lautahnúskur (Kiaeria falcata)

Útbreiðsla

Finnst strjált um landið, flestir fundarstaðir eru á Vestfjörðum og Vesturlandi (Bergþór Jóhannsson 1991).

Vistgerðir

Vex í lautum og dældum, einkum til fjalla en einnig í hraungjótum þar sem snjór liggur langt fram á vor (Bergþór Jóhannsson 1991).

Lýsing

Blöð alltaf áberandi sveigð til einnar hliðar. Vex í þéttum breiðum, grænum, gulgrænum, brún- eða svartleitum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Gróliður

Vex oft í lágum en þéttum, grænum, gulgrænum, brúnleitum eða svartleitum breiðum. Stöngull oftast 1-3 sm en getur orðið 7 sm. Blöð alltaf áberandi sveigð til einnar hliðar. Blöð mjókka smám saman frá lensulaga grunni fram í mjóan, vörtóttan eða hrjúfan framhluta. Rif mjótt, nær fram úr blöðku, vörtótt á baki í framhluta blaðs. Blaðrönd eitt frumulag á þykkt (Bergþór Jóhannsson 1991).

Kynliður

Plöntur tvíkynja, oft með gróhirslum. Stilkur uppréttur, 5-10 mm, gulur, verður oft rauðgulur eða svartur með aldrinum. Gróhirsla brún, nálægt því að vera öfugegglaga, slétt, álút, bogin, með greinilegum hnúð. Lok með skástæðri trjónu. Hetta gul, brún í endann, skástæð, klofin á hliðinni. Kranstennur rauðbrúnar neðan til en gular framan til, klofnar niður undir miðju (Bergþór Jóhannsson 1991).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs ferhyrndar eða ferningslaga, lítillega vörtóttar, ekki með holóttum veggjum. Í blaðgrunni við rifið eru frumur langar og ferhyrndar eða striklaga. Veggir þeirra eru ekki holóttir eða svo til holulausir. Horn greinileg en ekki sérlega áberandi, oft brúnleit (Bergþór Jóhannsson 1991).

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex í lautum og dældum, einkum til fjalla en einnig í hraungjótum þar sem snjór liggur langt fram á vor (Bergþór Jóhannsson 1991).

Biota

Tegund (Species)
Lautahnúskur (Kiaeria falcata)