Lindafaldur (Rhizomnium magnifolium)

Útbreiðsla

Finnst aðallega á norðan- og vestanverðu landinu (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Vistgerðir

Vex einkum í og við rennandi vatn, við lindir, dý, ár, læki og vötn, einnig í mýrlendi og undir rökum klettaveggjum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Lýsing

Plöntur uppréttar, 2-11 sm, með aflöng, egg- eða öfugegglaga blöð. Gróhirslur standa nokkurn veginn þvert út frá stilk (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Gróliður

Plöntur uppréttar, 2-11 sm, ljósgrænar, dökkgrænar eða gulbrúnar ofan til en svartleitar neðan til. Stöngull rauðbrúnn eða svartleitur. Rætlingar brúnir eða rauðbrúnir, ná oft langt upp eftir stöngli. Neðst á stöngli og í blaðöxlum eru grófir, langir, mikið greindir rætlingar. Milli blaða á miðhluta og efri hluta stönguls eru fíngerðir, stuttir, frekar lítið greindir en mjög þéttir rætlingar. Yngstu sprotahlutar eru rætlingalausir. Rök blöð útstæð. Efri blöð 5-7,5 mm, egglaga, öfugegglaga eða aflöng. Blaðgrunnur mjór. Örmjó ræma af blaðrönd niðurhleypt. Blaðendi bogadreginn eða með viki, stundum með örstuttum, sljóum oddi. Blöð heilrend, jöðruð af löngum mjóum frumum. Rif endar skammt neðan við blaðenda eða nær fram í hann (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Kynliður

Sjaldan með gróhirslum. Stilkur rauðbrúnn, 1,5-3 sm. Gróhirsla stendur nokkurn veginn þvert út frá stilk, gul eða gulbrún, aflöng. Lok með stuttri, breiðri, boginni trjónu og er hún ýmist sveigð upp eða niður á við. Ytri tennur gular, fínvörtóttar neðan til en með grófari vörtum fremst. Innri krans gulbrúnn, fínvörtóttur (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs aflangt sexhyrndar eða tígullaga sexhyrndar, oftast í reglulegum skáröðum upp og út frá rifi að blaðjaðri. Veggir nokkurn veginn jafnþykkir (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex einkum í og við rennandi vatn, við lindir, dý, ár, læki og vötn, einnig í mýrlendi og undir rökum klettaveggjum (Bergþór Jóhannsson 1995a).

Biota

Tegund (Species)
Lindafaldur (Rhizomnium magnifolium)